Samtökin undirstrika að fyrirtækin hafi hvergi komið nærri drápinu, og engir bátar eða aðstaða frá þeim hafi verið nýtt til drápanna eða eftir þau.
Í samtali við danska ríkisútvarpið, DR, segir Regin Jacobsen, forstjóri laxeldisfyrirtækisins Bakkafrost, að fyrirtækið hafi fengið fjölmargar fyrirspurnir um málið frá viðskiptavinum erlendis. Málið geti stórskaðað útflutningsfyrirtæki og því fagnar hann því að stjórnvöld ætli að taka málið föstum tökum. Að hans mati kæmi vel til greina að banna allt höfrungadráp.
„Það er jákvætt að stjórnvöld gáfu þessa yfirlýsingu, því auðvitað er þetta viðkvæmt pólitískt mál. Grindhvaladráp er samofið færeyskri menningu í gegnum aldirnar, en það er alls engin hefð fyrir höfrungadrápi.“
Í tilkynningu sem birt er á ensku á vef færeysku landstjórnarinnar segir Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, að málið væri litið alvarlegum augum.
„Þó veiðarnar séu taldar sjálfbærar munum við grandskoða leiftursdrápin og meta stöðu þeirra í færeysku samfélagi,“ segir hann og bætir við að landstjórnin mun hefja endurmat á reglum um leiftursveiðar.
We will be looking closely at the dolphin hunts, and what part they should play in Faroese society. The government has decided to start an evaluation of the regulations on the catching of Atlantic white-sided dolphins.
— Govt. Faroe Islands (@Tinganes) September 16, 2021
Prime Minister Bárður á Steig Nielsenhttps://t.co/EsAldXVxDM
Leifturstorfan sem gekk inn í Skálafjörð var að sögn lögmannsins sú langstærsta sem sést hefur.
Færeyingar veiða árlega um 600 grindhvali og 250 leiftur. Síðarnefnda tegundin hefur verið nokkurs konar aukaafurð með grindhvaladrápi, en þó stöku sinnum veidd ein og sér.