Skoðun

Ís­land, land fá­keppninnar

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Það sem skiptir felst heimili landsins miklu máli er aukinn kaupmáttur og auknar ráðstöfunartekjur. Stærstu útgjaldaliðir heimila eru skattar, fasteignalán eða leiga, vextir, dagvara og tryggingar.

Því miður höfum við tekið þá ákvörðun að hamla raunverulegri samkeppni á flestum sviðum með því að halda í gjaldmiðil sem enginn notar utan Íslands, gjaldmiðil sem enginn vill brúka til verslunar og viðskipta nema við. Það eitt og sér kemur í veg fyrir raunverulega samkeppni í bankastarfssemi sem þýðir margfalt hærri vaxtagjöld heimilanna. Krónan kemur í veg fyrir samkeppni í tryggingastarfsemi sem þýðir margfalt hærri iðgjöld fyrir heimilin. Hún kemur í veg fyrir raunverulega samkeppni á dagvörumarkaði sem leiðir til hærri matarútgjalda.

Fákeppnin er okkur lifandi að drepa. Krónan viðheldur fákeppni og heldur ráðstöfunartekjum okkar niðri. Þessi tekjutilfærsla er réttlætt í nafni sjálfstæðis og frelsis. Sumir flokkar vilja standa vörð um þjóðfrelsið líkt og um sé að ræða fornminjar sem vernda þurfi á Þjóðminjasafninu. Ég hef ekki efni á því að loka sjálfstæðið og frelsið inni. Ég vil frekar nota frelsi okkar og sjálfstæði sem þjóðar til að bæta hér lífskjör allra. Því miður hafa þúsundir Íslendinga flúið fákeppnina og komið sér fyrir í löndum þar sem stöðugleiki, frelsi, tækifæri og samkeppni er raunveruleikinn en ekki frasar fyrir kosningar.

Þegar upp verður staðið mun ég verða af ráðstöfunartekjum sem jafngilda verðmæti fasteignar minnar. Allt í nafni úreltrar þjóðernishyggju 19. aldar. Mig munar um þessa peninga um hver mánaðarmót. Hvað með þig?

Það er m.a. vegna þessa sem ég mun kjósa Viðreisn.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×