Katrín Tanja Davíðsdóttir er stærsta stjarnan hópsins en CompTrain átti fullt af keppendum á síðustu heimsleikum í ágúst síðastliðnum.
Katrín Tanja hefur verið að æfa á Íslandi í þessum mánuði en framundan er viðburðaríkur októbermánuður fyrir hana. Það verður svo sannarlega nóg að gera þegar hún mætir aftur út til Bandaríkjanna.
Evan hjá CompTrain kynnti túrinn á Instagram síðu fyrirtækisins en stofnandi þess er Ben Bergeron sem hefur þjálfað Katrínu Tönju í sex ár. Katrín hefur haft aðstöðu hjá honum í Natick, í Massachusetts fylki undanfarin ár.
Katrín Tanja hefur fengið flott fólk í æfingahópinn sinn á síðustu árum og á síðustu heimsleikum komust þau Amanda Barnhart, Chandler Smith og Samuel Kwant inn á leikana í Madison. Árið áður höfðu þau Katrín og Kwant bæði unnið silfur á heimsleikunum.
CompTrain ætlar ný að fara sýningarferðalag um Bandaríkin í október með CrossFit stjörnur sínar og verður Cole Sager líka í þeim hópi ásamt fleirum tengdum fyrirtækinu.
Hópurinn mætir með æfingatrukk og tengivagn og getur með því sett upp æfingabúðir á hverjum stað. Þar verða einnig þjálfaranámskeið og gestir og gangandi geta heilsað upp á stjörnurnar og þjálfarana.
Það verður líka möguleiki að reyna sig á móti einhverjum af stjörnunum í einni æfingunni sem sett verður í gang á vegum CompTrain.
Katrín Tanja þarf að passa upp á það að slaka ekki á við æfingarnar því stutt er í Rogue Invitational mótið sem fer fram í lok október.