Erlent

Kóreumenn hóta öryggisráðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Norður-Kórea hefur gert fjórar eldflaugatilraunir á nokkrum vikum.
Norður-Kórea hefur gert fjórar eldflaugatilraunir á nokkrum vikum. AP/KCNA

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa brugðist reiði við ályktunartillögu Frakka til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hótuðu ráðinu í dag fyrir að gagnrýna eldflaugavopnaáætlun ríkisins.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Norður-Kóreu sagði í tilkynningu í dag að öryggisráðinu væri hollast að hugsa um afleiðingar gjörða þeirra og hætta að skipta sér af fullveldi einræðisríkisins. Það er í kjölfar þess að Frakkar lögðu fram tillögu á föstudaginn um að lýsa yfir áhyggjum af eldflaugatilraunum Norður-Kóreu og kalla eftir því að þeim yrði hætt í samræmi við fyrri ályktanir ráðsins.

Talsmaðurinn sakaði öryggisráðið einnig um tvískinnung fyrir að gagnrýna ekki sambærilegar eldflaugatilraunir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.

Jo Chol Su (til vinstri) sem stýrir Norður-Ameríkudeild utanríkisráðuneytis Norður-Kóreu, var harðorður í garð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.AP/Kyodo News

Ríkisstjórn Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hóf tilraunir með eldflaugar í síðasta mánuði, eftir um hálfs árs hlé. Fjórum eldflaugum hefur verið skotið á loft frá Norður-Kóreu og þar á meðal eldflaug sem getur borið kjarnorkuvopn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur beitt umfangsmiklum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu vegna kjarnorkuvopnaáætlunar ríkisins og viðleitni ráðamanna þar til að þróa eldflaugar sem geti borið kjarnorkuvopn langar vegalengdir.

Samkvæmt ályktunum öryggisráðsins má ekki gera tilraunir með eldflaugar í Norður-Kóreu. Viðræður um kjarnorkuvopnaáætlunina strönduðu árið 2019.


Tengdar fréttir

Gerðu tilraun með nýja eldflaug

Ráðamenn í Norður-Kóreu segjast hafa gert tilraun með nýja tegund eldflauga sem hafi verið þróaðar til að skjóta niður flugvélar og aðrar eldflaugar. Nýju eldflauginni var skotið á loft í gær og var það í fjórða sinn á nokkrum vikum sem Kóreumenn skjóta eldflaug á loft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×