Fótbolti

Brynjar Ingi tæpur fyrir leikinn á mánu­dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjar Ingi Bjarnason í baráttunni við Timo Werner.
Brynjar Ingi Bjarnason í baráttunni við Timo Werner. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Brynjar Ingi Bjarnason fór meiddur af velli í hálfleik í 1-1 jafntefli Íslands og Armeníu í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu á Laugardalsvelli í gærkvöld. Brynjar Ingi verður að öllum líkindum ekki með í leik Íslands og Liechtenstein á mánudaginn kemur.

Brynjar Ingi hefur komið eins og stormsveipur inn í íslenska landsliðið á undanförnum mánuðum. Hann var að leika sinn sjöunda landsleik er hann fór meiddur af velli í gær.

Eftir leik sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, að hann og Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari, hefðu ekki viljað halda Brynjar Inga inn á bara til að taka hann út af í upphafi síðari hálfleiks.

Arnar sagði einnig að staðan á Brynjari Inga fyrir leikinn gegn Liechtenstein á mánudag væri óljós. Daníel Leó Grétarsson, leikmaður Blackpool í Englandi, kom inn fyrir Brynjar Inga en hann var kallaður inn í hópinn eftir meiðsli Jóns Guðna Fjólusonar.

Arnar Þór sagði einnig á blaðamannafundi eftir leik að þjálfarateymið hafi viljað fá örvfættan miðvörð inn í miðvörðinn og því hafi Ari Leifsson, leikmaður Strømsgodset í Noregi, setið áfram á bekknum.

Ísland mætir Liechtenstein klukkan 18.45 á mánudaginn kemur, þann 11. október. Ísland situr í næstneðsta sæti J-riðils með fimm stig. Liechtenstein er á botni riðilsins með eitt stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×