Forsætisráðherrann Erna Solberg sagði málið „hryllilegt“ á blaðamannafundi í gær. „Ég skil að margir séu hræddir en það er mikilvægt að leggja áherslu á að lögreglan er nú við stjórnvölinn,“ sagði hún.
Árásin er sögð hafa hafist í Coop Extra-verslun í vesturhluta Kongsberg. Annar særðu er lögreglumaður sem var ekki á vakt en var að versla í versluninni. Talsmaður Coop staðfesti að „alvarlegt atvik“ hefði átt sér stað í einni verslun en enginn starfsmanna hefði særst.
Lögreglustjórinn Oyvind Aas sagði að árásarmaðurinn hefði sloppið frá lögreglu í fyrstu en hefði verið handtekinn um það bil hálftíma eftir að hann lét til skarar skríða.

Vitni sagðist hafa orðið var við að eitthvað var að gerast og séð konu leita skjóls. Í framhaldinu hefði hún séð „mann standa á horninu með örvar í örvamæli á öxlinni og boga í höndinni“.
„Eftir á sá ég fólk hlaupa til að bjarga lífi sínu. Ein þeirra var kona sem hélt í höndina á barni,“ sagði sjónavotturinn í samtali við TV2.
Lögregla hefur greint frá því að það sé einnig í skoðun hvort maðurinn kunni að hafa beitt öðrum vopnum en boganum í árásinni.
Hverfi í borginni voru lokuð af í gær og íbúar beðnir um að halda sig innandyra á meðan lögregla rannsakaði þá staði þar sem grunaði fór um og safnaði sönnunargögnum.
Bæjarstjórinn Kari Anne Sand segir alla íbúa sem þess þurfa munu fá áfallahjálp.
Hinn grunaði, sem er sagður hafa búið í Kongsberg, var fluttur á lögreglustöð í Drammen og hefur reynst samstarfsfús, að sögn lögmannsins sem honum var skipaður. Sá staðfesti að móðir mannsins væri dönsk en vildi ekki tjá sig um skjólstæðing sinn að öðru leyti.