Um síðustu helgi gengu þjónar út á miðri vakt og gengu gestir því í störf til þess að létta undir með starfsfólki.
Þegar fréttastofa leit við á Snaps í kvöld virtist allt vera með besta móti, setið var í hverju sæti og gestir virtust hreinlega streyma inn um dyrnar.
Þórir Helgi Bergsson, rekstrarstjóri Snaps, segir í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að síðasta laugardagskvöld hafa verið ótrúlegt enda hefði hann ekki, í öllum sínum veitingarekstri, lent í öðru eins. Hann segist hafa þurft að standa vaktina einn með tvöfalda bókun.
„En þetta var bara eitthvað sem gerðist, það voru starfsmenn sem voru ekki ánægðir og þau ákváðu að það væri best að ganga út, gerður það klukkan fimm á laugardegi. Það kom mér hrikalega illa en að sama skapi þá bara var það þannig, segir Þórir Helgi.
Biður kúnna afsökunar
Hann segir það hafa verið mikið mál að bregðast við stöðunni sem upp kom síðastliðið laugardagskvöld en að það hafi verið gert og það starfsfólk sem eftir stóð hafi gert sitt besta.
„Ég segi frekar bara afsakið til kúnnanna okkar að þetta hafi gerst en svona gerast hlutirnir stundum. En það er engan bilbug á okkur að finna og við bara höldum ótrauð áfram og erum bara gamla góða Snaps,“ segir Þórir Helgi og bendir á sneisafullan veitingasal sér að baki.
Engar breytingar í vændum
Þórir Helgi er nýtekinn við stöðu rekstrarstjóra Snaps en hann segir engar breytingar vera í kortunum enda sé staðurinn búinn að stimpla sig inn sem veitingastað miðbæjarins.
„Fólkið í hverfinu kemur, það eru fastakúnnar. Það er bara stórkostleg stemning sem myndast alltaf í kringum þennan stað og auðvitað vil ég halda í það eins mikið og ég get,“ segir Þórir Helgi að lokum.