„Þetta virðist vera millivegurinn. Það er ekki aflétt öllu og það er bara ákvörðun ríkisstjórnarinnar og ég vona að það muni allt saman ganga vel,” segir Þórólfur Guðnason um þá ákvörðun að draga úr sóttvarnaaðgerðum innanlands.
Hins vegar geti afléttingar haft afleiðingar í för með sér. „Auðvitað held ég að afleiðingarnar geti orðið mismunandi ef við afléttum öllu. Þá held ég að við getum fengið það hraðar í bakið – en þetta skýrir sig nokkuð sjálft held ég.”
Gríman gagnleg í ákveðnum aðstæðum
Þórólfur gerði ekki tillögur um grímuskyldu til ríkisstjórnarinnar, en grímuskylda verður að fullu afnumin á miðnætti. „Ég held að grímur geti verið gagnlegar í ákveðnum aðstæðum en manni sýnist að fólk sé mikið til hætt að nota grímurnar, jafnvel í aðstæðum sem væru ákjósanlegar.”
Met var slegið í gær þegar áttatíu manns greindust með Covid19, en ekki hafa fleiri greinst með veiruna á einum degi síðan í ágúst. Þórólfur segir það alltaf áhyggjuefni.
„Ég er ansi smeykur yfir því að við séum mögulega að sjá einhverja fjölgun og kúrfuna fara upp á við núna. Það er stóra spurningin. Mun það skila sér í alvarlegum veikindum inn á spítalann, en ég vona svo sannarlega ekki, en það er náttúrulega það sem ég hef haft áhyggjur af,” segir Þórólfur.
Tálsýn að faraldrinum sé lokið
Aðspurður segir hann að ekki sé komið að þeim tímapunkti sem hægt sé að líta á kórónuveiruna eins og hefðbundna flensu.
„Ég held að við séum ekki komin á þann stað. Ég bendi bara á það sem er að gerast í Bretlandi og mörgum stöðum, þar sem Covid19 undanfarið hefur ekki verið eins og venjuleg flensa. Ég hef bent á það að afleiðingarnar af Covid19 í þessari bylgju undanfarið eru svona tíu sinnum meiri en af venjulegri árlegri inflúensu,” segir Þórólfur.
„Þannig að Covid er ekki búið, að mínu mati. Það er mörgum sem finnst að þetta sé bara búið en ég held að það sé tálsýn, því miður.”