Halls sagði byssuna „kalda“, það er að segja örugga, þegar hann rétti Baldwin vopnið en það reyndist ekki rétt. Baldwin, sem var við æfingar, beindi byssunni að myndavélinni og skot hljóp af.
Að sögn lögreglu virðist þetta eina skot hafa banað Hutchins og sært leikstjórann Joel Souza, þar sem það endaði í öxl hans. Lögregla lagði í vikunni hald á mikið magn skotfæra á tökustað og telur sig meðal annars hafa fundið umrætt skothylki.
Athygli vekur að meðal skotfæranna var þó nokkuð af virkum skotum, sem eru yfirleitt bönnuð á tökustað. Þetta staðfesti vopnavörður myndarinnar, Hannah Gutierrez-Reed, í samtali við lögreglu.
Gutierrez-Reed sagðist hafa athugað gervihylkin, sem innihalda ekki byssupúður, og tryggt að þau væru ekki „heit“. Rétt fyrir tökur hefði verið gert hádegishlé og hún skilið við skotfærin á bakka á tökustað.
Eftir hádegismat hefði umsjónarmaður leikmuna, Sarah Zachry, tekið skotvopnin úr læstum skáp og afhent Gutierrez-Reed.
Halls sagði öryggisferlum þannig háttað að yfirleitt hefði Gutierrez-Reed opnað byssurnar og hann skoðað þær. Hann hefði meðal annars tryggt að ekkert væri í hlaupinu og skoðað skotfærageymlsuna. Ef allt væri eins og það ætti að vera kallaði hann „köld byssa“.
Halls sagði Gutierres-Reed hafa sýnt honum umrædda byssu áður en æfingar héldu áfram en sagðist aðeins muna eftir að hafa séð þrjú skot í byssunni. Hann sagði að eftir að harmleikurinn átti sér stað hefði hann tekið byssuna upp, opnað hana og séð að minnsta kosti fjögur skothylki með götum og eitt án gats.
Gerviskot þekkjast stundum á því að göt eru á þeim.
Lögreglustjórinn Adan Mendoza sagði á fundi í gær að um 500 skotfæri hefðu fundist á tökustaðnum, meðal annars skot sem lögregla teldi raunveruleg, það er að segja ekki leikmuni sem væri ætlað að líkjast kúlum og búa til hvell.