Innlent

Ók á yfir 160 kílómetra hraða á flótta frá lögreglu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Margir virðast hafa lagt af stað út í umferðina í annarlegu ástandi í gær.
Margir virðast hafa lagt af stað út í umferðina í annarlegu ástandi í gær. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa staðið í ströngu við umferðareftirlit í gærkvöldi og í nótt. Fjölmargir ökumenn voru stöðvaðir, ýmist undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Ökumaður bifreiðar í Árbænum sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og hófst þá eftirför. Bifreiðinni var ekið yfir 160 kílómetra hraða og ók ökumaðurinn ítrekað á móti umferð.

Ökumaðurinn stöðvaði bifreiðina að lokum og tókst að hlaupa frá vettvangi. Lögregla telur sig vita hver hafi staðið að verki. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá stöðvaði lögregla akstur bifreiðar í miðbæ Reykjavíkur, þar sem ökumaður hafði verið staðinn að því að aka án öryggisbeltis. Í ljós kom að ökumaðurinn reyndist vera án ökuréttinda og var hann þar að auki skilríkjalaus. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð til þess að hægt væri að staðfesta hver einstaklingurinn væri.

Tveir voru teknir fyrir of hraðan akstur á Kringlumýrarbraut. Einn mældist á 117 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er áttatíu kílómetra hraði á klukkustund. Ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna en var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Þá mældist annar á 114 kílómetra hraða við hraðamælingu á Kringlumýrarbrautinni. Sá viðurkenndi brotið og var skýrsla rituð í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×