Fótbolti

Fimm mörk og tvö rauð er Ari Freyr hafði betur í Ís­lendinga­slag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ari Freyr í leik með Norrköping.
Ari Freyr í leik með Norrköping. Norrköping

Ari Freyr Skúlason var í byrjunarliði Norrköping er liðið vann 3-2 sigur gegn Elfsborg í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Hákon Rafn Valdimarsson stóð vaktina í marki Elfsborg.

Gestirnir í Elfsborg komust yfir strax á 14. mínútu með marki frá Jeppe Okkels áður en Carl Bjork jafnaði metin fimm mínútum síðar. Staðan var þó aðeins jöfn í þrjár mínútur, en Per Frick kom gestunum yfir á ný á 22. mínútu. 

Tíu mínútum síðar urðu liðsmenn Elfsborg þó fyrir áfalli þegar Simon Strand fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar enn var tæpur klukkutími eftir af leiknum.

Heimamenn náðu þó ekki að nýta sér liðsmuninn í fyrri hálfleik og staðan því 2-1, Elfsborg í vil, þegar gengið var til búningsherbergja.

Það var ekki fyrr en á 79. mínútu að liðsmenn Norrköping náðu að nýta sér liðsmuninn þegar Linus Wahlqvist jafnaði metin fyrir heimamenn og Samuel Adegbenro tryggði liðinu 3-2 sigur fimm mínútum síðar.

Frederik Holst fékk svo sitt annað gula spjald á þriðju mínútu uppbótartíma og því aðeins níu leikmenn Elfsborg eftir inni á vellinum.

Norrköping situr nú í sjötta sæti deildarinnar með 43 stig eftir 26 umferðir, fimm stigum á eftir Elfsborg sem situr í öðru sæti. Með sigri hefði Elfsborg lyft sér upp að hlið Malmö í efsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×