Fótbolti

Emil vakandi og líðan hans sögð góð eftir aðstæðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil er á láni hjá Sogndal frá Sarpsborg 08.
Emil er á láni hjá Sogndal frá Sarpsborg 08. SARPSBORG08

Emil Pálsson, sem fór í hjartastopp í leik með Sogndal í gær, er vakandi og líðan hans er eftir aðstæðum góð. Þetta kemur fram í stuttri yfirlýsingu frá Sogndal.

Emil hné niður á 12. mínútu í leik Sogndal og Stjørdals/Blink í gær. Hann var endurlífgaður á staðnum og í kjölfarið fluttur með sjúkraþyrlu á háskólasjúkrahúsið í Haukeland í Björgvin.

Í morgun greindi Sogndal frá því að ástand Emils væri stöðugt og hann yrði rannsakaður frekar seinna í dag.

Nú fyrir skemmstu var greint frá því á Facebook-síðu Sogndal að Emil væri vakandi og eftir aðstæðum væri líðan hans góð. Hann gengst undir frekari rannsóknir og verður meðhöndlaður á sjúkrahúsinu í Haukelund næstu daga.

Í samtali við Verdens Gang sagði Geir Inge Heggestad, upplýsingafulltrúi Sogndal, að síðustu fréttir sem hafi borist af Emil séu góðar.

„Þetta er klárlega jákvætt. Fréttirnar voru vel þegnar og við erum aðeins rólegri. Ég held að við höfum tekist vel á við þetta gagnvart leikmannahópnum og starfsfólki félagsins. Síðustu fregnir eru klárlega jákvæðar,“ sagði Heggestad.

Hann sagði að félagið hafi ekki rætt við Emil en liðslæknir Sogndal sé í sambandi við kollega sína á sjúkrahúsinu í Haukedal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×