Maðurinn er 25 ára gamall frá Vestri-Gautalandi. Hann var handtekinn í gær og húsleit gerð á heimili hans. Sænska ríkisútvarpið SVT segir að lögregla hafi lagt hald á fjölgmarga hluti en ekki kemur fram hvaða hlutir það voru.
Grunur leikur á um að maðurinn hafi undirbúið verknað sem fellur undir skilgreiningu sænskra hegningarlaga um „almenna eyðileggingu“ í bænum Falköping í meira en ár. Sænska öryggislögreglan Säpo hafi unnið með leyniþjónustunni að rannsókn á ofbeldisfullum hægriöfgamönnum.
Lögreglan vildi ekki svara því hvort að hún teldi sig hafa afstýrt einhvers konar árás með því að taka manninn fastan. Þá vildi hún ekki gefa skýr svör um hvort von gæti verið á frekari handtökum eða aðgerðum vegna rannsóknarinnar.
Sá grunaði hefur áður hlotið refsidóm fyrir líkamsárás en hann var bundinn skilorði. Þá hafði umsókn hans um skotvopnaleyfi vegna veiða verið hafnað vegna tengsla hans við Norrænu mótstöðuhreyfinguna.
Aftonbladet segir að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir líkamsárás þegar hann sló konu á mótmælum öfgasamtakanna í miðborg Gautaborgar í febrúar árið 2017. Konan, sem mótmælti nýnasistunum, er sögð hafa hrækt í andlitið á honum en hann brugðist við með því að kýla hana í andlitið.
Fylgjendur norrænu nýnasistasamtakanna hafa maðurinn er sagður tengjast hafa haft sig frammi á Íslandi á undanförnum árum, þar á meðal dreift áróðri í Háskóla Íslands.