Fótbolti

Danskur lands­liðs­­maður greindist með veiruna á leið sinni að hitta lands­liðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mathias Jensen verður ekki með adanska landsliðinu í þessum landsliðsglugga.
Mathias Jensen verður ekki með adanska landsliðinu í þessum landsliðsglugga. EPA-EFE/Friedemann Vogel

Mathias Jensen verður ekki með danska landsliðinu í fótbolta í komandi verkefni eftir að hafa greinst með kórónuveiruna á flugvellinum er hann var á leið að hitta landsliðið. Pione Sisto hefur verið kallaður inn í hans stað.

Hinn 25 ára gamli Jensen leikur með Brentford í ensku úrvalsdeildinni. Hann var á leiðinni að hitta liðsfélaga sína í danska landsliðinu fyrir leiki liðsins gegn Færeyjum og Skotlandi. Þar kom í ljós að hann væri með kórónuveiruna. Hann þurfti því að draga sig úr hópnum og halda heim á leið í einangrun.

Í hans stað var Pione Sisto, 26 ára gamall leikmaður Midtjylland, kallaður inn í hópinn. Sisto gekk í raðir Midtjylland á nýjan leik á síðasta ári eftir að hafa leikið með Celta Vigo í fjögur ár. Hann komst í heimsfréttirnar er faraldurinn hafði skollið á og útivistarbann hafði verið sett þar í landi en Sisto ákvað þá að keyra frá Spáni til Danmerkur.

Sisto hefur alls leikið 25 leiki fyrir danska landsliðið en sá síðasti kom í nóvember á síðasta ári. Hann fær nú mögulega tækifæri til að bæta tveimur leikjum til viðbótar í safnið en Danmörk hefur nú þegar tryggt sér sæti á HM 2022 í Katar.

Danir hafa unnið alla átta leikina sem þeir hafa spilað til þessa og þá á liðið enn eftir að fá á sig mark í undankeppninni.

Pione Sisto í leik Danmerkur og Englands í október á síðasta ári.EPA-EFE/Toby Melville



Fleiri fréttir

Sjá meira


×