Fundur nefndarinnar hófst klukkan tíu í morgun en hún hefur nú komið saman yfir tuttugu sinnum til að ræða endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi.
Nefndin fór í vettvangsferð til Borgarness fyrir um þremur vikum síðan en í henni kom í ljós að kjörseðill sem talinn var gildur og tilheyrði Framsóknarflokknum hafði ranglega verið flokkaður í bunka með auðum atkvæðum.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu hefur það verið til umræðu innan nefndarinnar undanfarna daga að fara aðra ferð til Borgarness til að kanna kjörseðlana enn betur.
Vildu kanna fleiri bunka
Tilgangur ferðarinnar væri þá að skoða fleiri bunka en auða og ógilda og sjá hvort þar fyndust einnig ranglega flokkuð atkvæði.
Samkvæmt einum nefndarmanni var nefndin orðin nokkuð viss um að hún þyrfti að fara í ferðina en hefur nýlega fengið upplýsingar í hendurnar sem hefur gefið henni tilefni til að endurskoða það.
Búast má við að ákvörðun um ferðina verði tekin á fundinum í dag en honum ætti ekki að ljúka fyrr en seinni partinn.
Óljóst er hvaða bunka nefndin myndi rannsaka aftur og þá hvort hún myndi aðeins skoða flokkun atkvæða í bunkunum eða hreinlega ráðast í að telja eitthvað af atkvæðunum aftur.
Lagaleg heimild til slíkra aðgerða er þá óljós en umboðsmenn framboðslistanna þyrftu líklega að vera viðstaddir ef nefndin ákveður að ráðast í þær.