Gunnar Smári sat í efsta sæti á lista flokksins í Reykjavík norður fyrir alþingiskosningarnar í haust en flokkurinn náði ekki manni inn.
Hann á þó fulltrúa í einu sveitarfélagi landsins; Sanna Magdalena Mörtudóttir komst inn sem borgarfulltrúi í Reykjavík í síðustu kosningum.
Gunnar Smári segir í samtali við fréttastofu að það sé ekki enn búið að taka ákvörðun um hvort hann bjóði fram í fleiri sveitarfélögum í kosningunum.
„Þetta er nú svona í litlum flokki, þingkosningar nýbúnar og jólin að koma. En það verður líklega búið að taka ákvörðun um það einhvern tíma í kring um áramót,“ segir Gunnar Smári.
Færi ekki fram í öðru sveitarfélagi
Nokkrir fundir hafi verið haldnir innan flokksins um framboð í Reykjavík.
Sjálfur segist Gunnar Smári ekki ætla að gefa kost á sér í það. „Nei, það hafði nú aldrei hvarflað að mér.“
En kæmi til greina að reyna við annað sveitarfélag?
„Nei, ég er nú búinn að búa í Reykjavík síðan ég var tveggja ára og hef ekki hugsað mér að ætla að fara að láta eins og ég búi annars staðar,“ segir hann.