Fótbolti

Sviss sendi Evrópu­meistara Ítalíu í um­spil | Skotar fyrstir til að leggja Dani

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Yann Sommer og Sviss eru á leiðinni á HM í Katar.
Yann Sommer og Sviss eru á leiðinni á HM í Katar. Jonathan Moscrop/Getty Images

Ríkjandi Evrópumeistarar Ítalíu fara í umspil um sæti á HM í Katar á næsta ári. Skotland varð einnig fyrsta liðið til að sækja þrjú stig gegn Danmörku en fyrir leik kvöldsins höfðu Danir unnið alla níu leiki sína í undankeppninni.

Í C-riðli voru Sviss og Ítalía jöfn að stigum fyrir lokaumferðina. Á meðan Ítalía gerði markalaust jafntefli í Norður-Írlandi þá vann Sviss 4-0 sigur á Búlgaríu. Noah Okafor, Remo Freuler, Cedric Itten og Ruben Vargas með mörkin.

Sviss vinnur því riðilinn með 18 stig á meðan Ítalía endar í 2. sæti með 16 stig. Evrópumeistararnir þurfa því að fara í umspil um sæti á HM.

Í F-riðli höfðu Danir þegar tryggt sér sigur og Skotar voru á leið í umspilið. Þessar tvær þjóðir mættust á Hampden Park í Skotlandi og höfðu heimamenn betur, lokatölur 2-0. 

John Souttar kom Skotlandi yfir á 35. mínútu og Che Adams tryggði sigurinn með öðru marki heimamanna er fjórar mínútur lifðu leiks.

Í öðrum leikjum riðilsins vann Austurríki 4-1 sigur á Moldóvu og Ísrael vann 3-2 sigur á Færeyjum.

Þá vann England ótrúlegan 10-0 sigur á San Marínó á meðan Pólland tapaði óvænt á heimavelli fyrir Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×