Fram kemur á heimasíðu Lyfjastofnunar Evrópu, EMA, að skammturinn sem gefinn verði börnum undir tólf ára verði minni en sá sem gefinn er öðrum. Fimm til ellefu ára börn muni fá 10 µg skammt í stað 30 µg. Rétt eins og hjá öðrum fái börnin þó tvo skammta ef efninu, sem sprautað verði í vöðva í upphandleggi.
Samkvæmt rannsóknum á bóluefninu í þessum aldurshópi gefur bóluefnið svipaða vörn og það gefur fólki á aldrinum 16 til 25 ára þrátt fyrir smærri skammt. Um tvö þúsund börn tóku þátt í rannsónkinni, sem aldrei höfðu greinst með Covid. Af þeim 1.305 börnum sem fengu bóluefnið, en ekki lyfleysu, smituðust þrjú af Covid í kjölfarið. Af þeim 663 börnum sem fengu lyfleysuna greindust sextán smituð af Covid á rannsóknartímanum. Reiknast það út sem bóluefnið gefi 90,7 prósenta vörn.
Algengustu aukaverkanir bóluefnisins hjá börnum fimm til ellefu ára voru svipaðar þeim í eldri aldurshópum. Þar á meðal er verkur á stungusvæði, þreyta, höfuðverkur, roði og bólga á stungustað, vöðvaverkir og kuldaköst.
Telst bóluefnið því öruggt fyrir börn á þessum aldri.