Skoðun

Ekki fara til útlanda

Björg Gunnarsdóttir skrifar

Þú flýgur til fjarlægra landa til þess að uppgötva heiminn og um leið þig sjálfan. Þú kemst að því að tilfinning afmarkast hvorki við tíma né stað. Þú áttar þig á því að flugvélar rúma ekki þúsund hjörtu. Þú sérð að vængir þarfnast viðgerða rétt eins og draumar um betra líf. Þú fattar að öryggisbeltið mun aldrei beisla eftirsjánna. Til þess að takast á loft þarf meira en hálfan bensíntank.

Þú skilur að í hverjum einasta jarðveg er dæld og veðurpsáin gerir alltaf ráð fyrir skekkju. Þú fattar að sá sem þú elskar deyr aldrei. Þú sérð að holan innra með þér getur stækkað og minnkað á víxl en gufar aldrei upp. Þú finnur að þyngdaraflið hrindir þér alltaf í sömu átt. Það skiptir ekki máli hvað þú setur í ferðatöskuna svo lengi sem þú hefur þrek til að draga hana á eftir þér.

Í dag sveifla fæturnir fram og til baka í skíðalyftu. Á morgun límist sveitt bakið við sólarbekk. Í dag gleymirðu að fara í sturtu og á morgun skiptir ekki máli hversu lengi þú fiktar í ofninum því þér hættir aldrei að vera kalt. Í dag og á morgun munu vindarnir blása og sólin ylja.

Það er auðvelt að pakka í tösku. Það er auðvelt að panta sér miða. Það er auðvelt að fljúga í burtu. Það er mun erfiðara að lenda á stöðugri grundu, standandi á báðum fótum.

Höfundur býr í útlöndum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×