Óveður gengur nú yfir stóran hluta landsins og hafa liðsmenn björgunarsveita haft í nógu að snúast.
Grindavík er engin undantekning en þar mældust hviður yfir 30 metra á sekúndu nú eftir hádegið og fauk meðal annars gámur á hliðina við höfnina.
Á Facebook síðu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar má sjá skemmtilegt innlegg þar sem þeir greina frá störfum deildarinnar í dag og biðja fólk að huga vel að lausamunum í nánasta umhverfi sínu. Í lok færslunnar hvetja þeir síðan fólk til að halda sig innandyra og birta uppskrift að svokölluðum Björgunarsveitarpiparkökum sem þeir segja tilvalið að baka í dag.
Eins og áður segir hafa aðrar björgunarsveitir á landinu einnig haft nóg að gera. Björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ hefur þurft að eiga við fjúkandi þakplötur, skilti og aðra lausamuni sem hafa fokið. Í mestu hviðunum mældust 46 metrar á sekúndu í Ólafsvík.