Fótbolti

Andrea fékk aðeins níu mínútur hjá Houston

Sindri Sverrisson skrifar
Andrea Rán Hauksdóttir í leik gegn Gotham City 1. ágúst en það reyndist eini leikur hennar fyrir Houston Dash.
Andrea Rán Hauksdóttir í leik gegn Gotham City 1. ágúst en það reyndist eini leikur hennar fyrir Houston Dash. Getty/Trask Smith

Bandaríska knattspyrnufélagið Houston Dash tilkynnti í gær að það hefði ákveðið að endurnýja ekki samning við landsliðskonuna Andreu Rán Hauksdóttur.

Andrea, sem er 25 ára, er ein af nokkrum leikmönnum sem Houston kvaddi á samfélagsmiðlum sínum í gær. Liðið endaði í 7. sæti af 10 liðum bandarísku deildarinnar og rétt missti því af úrslitakeppninni.

Andrea, sem hafði leikið vel á miðjunni hjá Breiðabliki í byrjun sumars, gekk í raðir Houston 1. júní. Síðasta vetur hafði hún leikið í Frakklandi sem lánsmaður hjá Le Havre.

Hjá Houston fékk Andrea nánast ekkert tækifæri til að sýna sig og sanna. Hún kom aðeins við sögu í einum leik í bandarísku deildinni, og lék þar níu mínútur.

Skortur á mínútum með Houston kostaði Andreu sæti í íslenska landsliðshópnum í síðustu tveimur verkefnum. Hún var síðast valin í hópinn fyrir leik við Holland í september og spilaði síðast landsleik gegn Írlandi í júní, en það var hennar tólfti A-landsleikur.

Andrea hefur áður spilað í Bandaríkjunum en hún lék í bandaríska háskólaboltanum með South Florida Bulls á sínum tíma. Á Íslandi hefur hún leikið með Breiðabliki allan sinn feril.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×