Það eru þjálfarar, blaðamenn og fyrrverandi leikmenn sem koma að vali breska blaðsins The Guardian á bestu knattspyrnukonum heimsins.
Sú besta árið 2021 er hin spænska Alexia Putellas sem nýverið hlaut einnig Gullknöttinn og var kjörin UEFA-leikmaður ársins. Hún var algjör lykilmaður hjá Barcelona sem vann Meistaradeild Evrópu, spænska meistaratitilinn og spænska bikarmeistaratitilinn.
Alls á Barcelona sex leikmenn á listanum yfir tíu bestu knattspyrnukonur heims. Listann má sjá hér.
Á síðasta ári var Sara Björk í 24. sæti en hún hefur verið í hléi frá fótbolta síðan í mars. Hún eignaðist sitt fyrsta barn í síðasta mánuði en stefnir að því að snúa aftur til keppni á næsta ári og er með EM í Englandi í sigtinu.
Í 2. sæti yfir bestu knattspyrnukonur heims er, annað árið í röð, Vivianne Miedema úr Arsenal, sem mætti Íslandi með liði Hollands á Laugardalsvelli í september. Ísland mætir Hollandi að nýju næsta haust, þegar úrslitin ráðast í undankeppni HM.
Tíu bestu knattspyrnukonur heims árið 2021, samkvæmt kjöri The Guardian, eru:
- Alexia Putellas, Barcelona
- Vivianne Miedema, Arsenal
- Sam Kerr, Chelsea
- Caroline Graham Hansen, Barcelona
- Pernille Harder, Chelsea
- Jenni Hermoso, Barcelona
- Fran Kirby, Chelsea
- Irene Paredes, Barcelona
- Lieke Martens, Barcelona
- Aitana Bonmati, Barcelona