Innlent

Stöðvuðu för flutninga­skips vegna gruns um olíu­mengun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Greinileg olíumengun var sjáanleg.
Greinileg olíumengun var sjáanleg. Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan stöðvaði för erlends flutningaskips á leið til hafnar í Reykjavík í gærmorgun eftir að gervitunglamynd gaf til kynna að olíumengun kynni að stafa frá skipinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni þar sem segir að viðvörun um mengunina hafi komið frá EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu.

Gervitunglamyndin sem barst í gær var tekin í um 700 kílómetra hæð og mengunarflekkurinn sem gervitunglið nam stemmdi við siglingaleið umrædds skips.

Myndin var þess eðlis að mikilvægt þótti að ganga úr skugga um að skipið væri ekki enn að gefa frá sér mengun, en olíuflekkir á siglingaleið skipsins komu síðar í ljós.

Áhöfn varðbátsins Óðins, ásamt sérfræðingi Umhverfisstofnunar, gengu úr skugga um að enginn olíuleki væri sjáanlegur frá skipinu. Að því búnu var skipinu heimilt að halda til hafnar þar sem hafnarríkiseftirlit Samgöngustofu tók á móti því til nánari skoðunar.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kom sem fyrr segir auga á olíuflekki á siglingaleið skipsins, norður og vestur af Garðskaga, og var varðbáturinn Óðinn sendur til þess að taka sýni úr sjónum. Sýnin verða send til frekari greiningar erlendis á vegum Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×