Hreinn skrifaði status á Facebooksíðu sína í gærkvöldi þar sem hann undirstrikaði að það hafi verið mikill heiður að hafa tekið við starfi aðstoðarmanns Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, fyrir rúmum tveimur árum, en nú ætli hann að leita á önnur mið.
Var of fljótur að segja já
„Málefni ráðuneytisins eru fjölmörg og spennandi. Ég tók því boði Jóns Gunnarssonar þegar hann bauð mér að halda áfram störfum við ráðherraskiptin í byrjun mánaðarins. Fljótlega komst ég þó að raun um að ég hafði verið of fljótur á mér og hef nú afráðið að láta af störfum,” sagði Hreinn í færslunni og fékk á hana fjölmörg læk frá fyrrverandi samstarfsmönnum sínum og stjórnmálafólki úr flestum flokkum.

Ekki hefur formlega fengist upplýst hvers vegna Hreinn sagði upp sem aðstoðarmaður Jóns, en samkvæmt heimildum fréttastofu hugnaðist Hreini ekki að vinna með Brynjari Níelssyni fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem einnig var ráðinn aðstoðarmaður ráðherra skömmu eftir Hreini.
Gat ekki svarað því hvað Hreinn ætlar að gera
Óttar Kolbeinsson Proppé fréttamaður hitti á ráðherrann eftir ríkisstjórnarfund í morgun og spurði hann út í þessar vendingar í aðstoðarmannaliði sínu. Jón átti ekki skýr svör við því hvað stæði til að Hreinn mundi gera fyrir ráðuneytið.

„Hann vildi ekki vera fastráðinn til lengri tíma. Þá sjáum við til hvort við getum ekki nýtt krafta hans og reynslu í þágu verkefna hjá okkur ef um það semst.”
Þannig að það er ekki alveg komið á hreint að hann muni gera það?
„Við erum að ræða þessa hluti. Við erum bara að fara yfir þá. Þetta var bara að gerast hann tók þessa ákvörðun. Og þá höfum við rætt þetta í framhaldinu. Bara svo það sé á hreinu, þessi ákvörðun Hreins, við tökum hana í mikilli sátt. Það er að segja hann tekur hana í mikilli sátt við mig og á milli okkar er bara mjög gott.”