Innlent

Vilja fá óháðan aðila til að taka út veitingu undanþága

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þetta er í annað sinn sem skýrslubeiðnin er lögð fram í þinginu.
Þetta er í annað sinn sem skýrslubeiðnin er lögð fram í þinginu.

Þingmenn Pírata og Flokks fólksins hafa lagt fram beiðni um skýrslu frá innanríkisráðherra um undanþágur frá aldursákvæði hjúskaparlaga. Beiðnin varðar heimild til barna yngri en 18 ára til að ganga í hjónaband.

Vísir greindi frá því í sumar að samkvæmt skýrslu dómsmálaráðuneytisins til allsherjar- og menntamálanefndar hefðu átján einstaklingar fengið heimild til að ganga í hjónaband þrátt fyrir að þeir hefðu ekki náð 18 ára aldri.

Um var að ræða sautján stúlkur og einn dreng.

Í tveimur tilvikum var um að ræða sautján ára stúlkur sem fengu undanþágu til að giftast 31 árs manni en tvær stúlkur voru aðeins 16 ára þegar þær giftust mönnum sem voru 18 ára og 23 ára.

Tilefni skýrslusmíðanna var frumvarp Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um bann við barnahjónaböndum en skýrslubeiðnin nú gengur út á að fá upplýsingar um það hvaða verklag var viðhaft í þeim tilvikum þegar undanþága var veitt, hvaða gagna var aflað og hvernig ráðuneytið „rannsóknarskyldu sína til að ganga úr skugga um að ekki væri um þvingun að ræða áður en hver beiðni um undanþágu var samþykkt“.

Athygli vekur að í greinargerð með skýrslubeiðninni er þess óskað að óháður aðili vinni skýrsluna, þar sem niðurstöður úttektarinnar kunni að reynast gagnrýnar á framkvæmd ráðuneytisins.

„Skýrslubeiðni þessari er ætlað að gera upp framkvæmd þessa undanþáguákvæðis á þeim tímapunkti þegar vonandi styttist í að það heyri sögunni til. Ef einhver misbrestur hefur verið á framkvæmdinni, sem leitt hefur til þess að brotið hafi verið á rétti einstaklinga sem njóta verndar barnasáttmálans, þá þurfa þær upplýsingar að rata í dagsljósið. Þar sem niðurstöður úttektarinnar geta reynst gagnrýnar á framkvæmd ráðuneytisins sjálfs er þess óskað að leitað verði út fyrir ráðuneytið til óháðs aðila við gerð skýrslunnar,“ segir í greinargerðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×