Innherji

Sammála um að skynsamlegt sé að létta álaginu af spítalanum með aðkomu fleiri en ríkisins

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tókust á á Alþingi í dag.
Katrín Jakobsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tókust á á Alþingi í dag.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spyr hvort til greina komi að ríkið leiti í auknum mæli til annarra þeirra sem geta létt álaginu af Landspítalanum um að veita heilbrigðisþjónustu í ljósi faraldursins og þess álags sem spítalinn er undir vegna hans. 

Spurningunni var varpað fram undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi fyrr í dag og var beint til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Katrín segir að nákvæmlega það hafi verið gert. Samningar hafi verið gerðir við ýmsa aðila einmitt til að ná þeim árangri að létta álagi af spítalanum. „Það snýst ekki um að neinn leyfi neinum neitt heldur hefur það einfaldlega verið það skynsamlega að gera," segir Katrín. Flokkur hennar Vinstri græn, hafa hingað til lýst því yfir að þau séu ekki hlynnt aðkomu einkaaðila að heilbrigðisþjónustu en Sigmundur vill meina að flokkur Katrínar standi fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðisþjónustu fyrir þrifum.

Kallar eftir pólítískri framtíðarsýn

„Í á annað ár hef ég kallað eftir framtíðarsýn frá hæstvirtum forsætisráðherra varðandi það hvernig skuli tekist á við þetta faraldursástand sem stendur enn,” segir Sigmundur og hnýtir í Katrínu sem honum finnst að hafi ekki svarað þeim fyrirspurnum öðruvísi en að benda á að faraldurinn sé mikilli óvissu háður, ný afbrigði geti komið og svo framvegis. Hann segir vissulega rétt að veirur eigi það til að breyta sér og ný afbrigði að birtast. Það sé fyrirséð.

„Til að mynda vitum við að þó að smitum fjölgi hratt, jafnvel eins hratt og hefur verið undanfarna daga, þá tæki það mörg ár fyrir alla Íslendinga að hafa greinst smitaða. Svarið er iðulega þetta: Þetta snýst allt um álagið á heilbrigðiskerfið og að við höldum því á þeim stað að kerfið ráði við það,” segir Sigmundur og spyr enn á ný hvort ekki megi útvista verkefnum tengdum heilbrigðismálum til annarra í ljósi þess álags sem spítalinn standi undir. 

Það eitt og sér feli í sér mjög aukna hagkvæmni en hjálpi um leið heilbrigðiskerfinu til að takast á við önnur mál, á borð við Covid 19.

Katrín segir leið temprunar hafa verið farna

Katrín segir sýnina hafa verið skýra frá upphafi. Leið temprunar hafi verið farin. 

„Sú skýra sýn birtist í upphafi með þeim aðgerðum að reynt var að bæla niður veiruna eftir fremsta megni en tryggja um leið gang samfélagsins. 

Eftir að bólusetningar tóku kipp, en margir höfðu efasemdir um áform stjórnvalda sem eigi að síður gengu öll eftir, hefur verið farin leið temprunar, það er að hafa ákveðna stjórn á fjölgun þeirra sem smitast.”

Hins vegar sé töluverð óvissa um ómíkron-afbrigðið. „Það er ljóst að ómíkron-afbrigðið smitast gríðarlega hratt. Við sjáum það bara á smittölum í löndunum í kringum okkur og við sjáum það í þeim líkönum sem vísindamenn okkar hafa sett fram. Hins vegar sjáum við líka að það veldur minni veikindum. En það breytir því ekki að ef smitefni er jafn mikið og raun virðist vera þýðir það alltaf að ákveðið hlutfall veikist alvarlega og þarf á þjónustu sjúkrahúsa að halda,” segir Katrín.

Sigmundur segir VG standa í vegi fyrir fjölbreyttu rekstrarformi en Katrín segir svo ekki vera

Sigmundur segir að hann hafi átt orðastað við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra fyrir fáeinum dögum, um hvort ætti í auknum mæli að leita eftir þjónustu þeirra sem geta veitt hana á góðan hátt og hagkvæman til að létta af Landspítalanum á erfiðum tímum. Sigmundur segir Bjarna hafa einu sinni sem oftar hafa tekið vel í þessa fyrirspurn. „En það virðist stranda á Vinstri grænum, sem fá sínu fram í þessu stjórnarsamstarfi og ráða því sem þeir vilja ráða."

Katrín var ósammála þessum málflutningi Sigmundar. „Hvað varðar samninga [um heilbrigðisþjónustu] við aðra aðila gæti ég auðvitað talið ýmislegt upp," segir Katrín. „Ég nefndi áðan liðskiptasetur á Akranesi, ég nefndi líka samninga við aðra aðila eins og um Covid-deild á Eir og aðra slíka aðila sem einmitt hefur verið ráðist í samninga við til þess að létta álagi af spítalanum. Það snýst ekki um að neinn leyfi neinum neitt heldur hefur það einfaldlega verið það skynsamlega að gera," segir Katrín.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×