Innlent

Ríkis­ráð kemur ekki saman á gaml­árs­dag vegna smitaðra ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Síðasti ríkisráðsfundur var á Bessastöðum þegar nýtt ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum í lok nóvember.
Síðasti ríkisráðsfundur var á Bessastöðum þegar nýtt ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum í lok nóvember. Vísir/Vilhelm

Ríkisráð kemur ekki saman á gamlársdag líkt og venja hefur verið undanfarna áratugi. Ástæðan er sú að í það minnsta þrír ráðherrar verða í einangrun um áramótin vegna kórónuveirusmits.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands, en þrír ráðherrar úr röðum Sjálfstæðisflokksins – þau Bjarni Benediktsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir – eru öll í einangrun vegna kórónuveirusmits. 

„Sú hefð að hafa fund í ríkisráði á gamlársdag hefur verið við lýði frá því að Kristján Eldjárn tók við embætti forseta Íslands. Á því hafa orðið þrjár undantekningar fram til þessa. Árið 1978 var ríkisráðsfundur haldinn degi fyrr og mun það hafa verið vegna þess að gamlárdag það ár bar upp á sunnudag. Árið 1980, á fyrsta ári Vigdísar Finnbogadóttur á forsetastóli, var fundur boðaður en honum frestað á síðustu stundu vegna spennu og vanda í stjórnarsamstarfi. Árið 1989 var ríkisráðsfundur haldinn laugardaginn 30. desember, aftur væntanlega svo að hann skaraðist ekki á við messutíma á sunnudegi. Æ síðan hefur ríkisráð komið saman á gamlársdag.

Næsti fundur í ríkisráði verður boðaður á nýju ári en dagsetning verður ákveðin síðar,“ segir í tilkynningunni.

Forseti Íslands og ráðherrar skipa saman ríkisráð og hefur forseti þar forsæti.


Tengdar fréttir

Bjarni Bene­dikts­son með Co­vid-19

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindist með Covid-19 í dag. Hann hvetur alla til að sýna varkárni vegna útbreiðslu veirunnar í samfélaginu.

Áslaug Arna bætist í hóp smitaðra ráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur greinst smituð af kórónuveirunni. Hún segist vonast til að á nýju ári verði hægt að horfa til eðlilegri tíma. 

Þórdís Kolbrún einnig með Covid-19

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur greinst með Covid-19 og eru þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins nú komnir í einangrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×