Innlent

Von til staðar en ekki hægt að „láta þetta gossa“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, sem bar upp þá spurningu hvort hægt væri að láta veiruna gossa yfir samfélagið í ljósi vísbendinga um að ómíkrón-afbrigðið fæli í sér mildari veikindi en önnur afbrigði.
Það var Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, sem bar upp þá spurningu hvort hægt væri að láta veiruna gossa yfir samfélagið í ljósi vísbendinga um að ómíkrón-afbrigðið fæli í sér mildari veikindi en önnur afbrigði. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ákveðin von sé til staðar í þeirri stöðu sem komin er upp núna í kórónuveirufaraldrinum ef rétt reynist að ómíkronafbrigðið sé mildara en önnur afbrigði veirunnar. Hann segir að það sé þó skynsamlegra að bíða eftir því að slíkt liggi fyrir, fremur en að láta veiruna gossa yfir samfélagið.

Þetta er meðal þess sem fram kom á upplýsingafundi almannavarna sem haldinn var í dag. Á fundinum kom meðal annars fram að vísbendingar væru um að ómíkronafbrigðið væri mildara en önnur, það er að það virðist síður valda alvarlegum veikindum en önnur afbrigði.

Sagði Þórólfur að ef það reyndist rétt væri hægt að slaka frekar fljótt á samfélagslegum takmörkunum. Síðar á fundinum spurði Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, nánar út í þetta og hvort að hægt væri að leyfa faraldrinum að geisa í ljósi þess að ómíkronafbrigðið virtist vera vægara, „láta þetta gossa“ eins og hann orðaði það.

„Ég held að það sé ákveðin von í þeirri stöðu sem við erum með uppi núna, það er að segja útbreiddri bólusetningu hér á landi sem kemur í veg fyrir alvarleg veikindi en að fá svo náttúrulega sýkingu ofan í það til að búa til gott ónæmi í samfélaginu, án alvarlegra afleiðinga, svaraði Þórólfur.“

Daglegt brauð þessa dagana, langar raðir í sýnatöku.Vísir/Vilhelm.

Ekki væru hins vegar öll kurl komin til grafar um hvort að óhætt væri að sleppa ómíkron-afbrigðinu lausu um samfélagið.

„Það sem við erum náttúrulega smeyk við núna, það eru mjög margir sem eru ekki fullbólusettir. Margir sem eru óbólusettir og við vitum ekki ef við látum þetta gossa eins og þú sagðir, hvað gerist þá? Hversu margir, þó að hlutfallið sé lágt sem að þarf að leggjast inn á spítala, þá getur fjöldinn orðið töluvert mikill,“ sagði Þórólfur.

Skynsamlegra að bíða nú en að naga sig í handarbökin síðar

Skynsamlegra væri að staldra aðeins við, bíða og sjá þangað til haldbærar upplýsingar um hversu alvarlegt eða óalvarlegt ómíkronafbrigðið er. 

„Þess vegna viljum við láta teygja kúrfuna aðeins á langinn á meðan við erum að átta okkur betur á þessu. Það getur alveg komið til greina ef niðurstaðan verður klárlega sú að það eru bara mjög fáir sem sýkjast alvarlega af ómíkron-afbrigðinu að þá, eins og ég sagði áðan, held ég að það séu alveg forsendur í því að fara að slaka á.

Mér finnst skynsamlegra að taka þessa afstöðu heldur en að láta allt gossa núna og naga sig svo í handarbökin yfir því að við höfum farið of hratt í þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×