Fótbolti

Hætti snemma í boltanum til að fara á sjóinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Fabio Coentrao
Fabio Coentrao Nordicphotos/Getty

Það er æði misjafnt hvað moldríkir knattspyrnumenn ákveða að gera þegar knattspyrnuferillinn er á enda.

Flestir þeirra sem spila í hæsta gæðaflokki reyna að spila eins lengi og líkaminn leyfir og kreista hverja einustu krónu út úr ferlinum en Portúgalinn Fabio Coentrao fór aðra leið.

Eftir að hafa verið á mála hjá spænska stórveldinu Real Madrid frá 2011-2019 er Coentrao nú hættur í fótbolta, 32 ára að aldri, og farinn að starfa sem sjómaður í heimabæ sínum í Portúgal, sjávarþorpinu Vila do Conde.

Eftir að hann yfirgaf Real Madrid lék hann tvö tímabil með uppeldisfélagi sínu í Portúgal, Rio Ave en nú hefur önnur ástríða tekið yfir líf hans, sjómennskan. 

„Lífið á sjónum er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir, eins og einhverjir halda. Þetta er starf eins og hvað annað. Og ekki bara starf heldur er sjórinn fallegur og við þurfum á honum að halda,“ sagði Coentrao í sjónvarpsþætti sem fjallaði um ákvörðun hans að hætta í fótbolta þrátt fyrir að vera í fullu fjöri og færa sig á sjóinn.

„Mikið af fólki lifir á sjónum og þetta er atvinnugrein sem ætti að njóta virðingar eins og hver önnur,“ segir Coentrao.

Coentrao lék 52 landsleiki fyrir Portúgal á ferli sínum en hann var þegar farinn að undirbúa framtíðina á sjónum þegar hann lék fyrir Real Madrid þar sem hann keypti sér sinn fyrsta bát árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×