Magnús vinnur í frystihúsinu við Lónsbraut 1 í Hafnarfirði þar sem hann er mest megnis að vinna á flökunarvélinni en hann hefur líka gaman af því að taka hnífinn og handflaka. Hann hefur starfið við flökun og verið til sjós til fjölda ára og alltaf kunnað vel við sig í starfi. Magnús er ótrúlega ern, 85 ára gamall, alltaf kátur og hress. Hann segir að það sé meira en nóg af fiski í sjónum.
„Já, það er nóg, það má drepa meira af honum, ég er alveg sammála því. Fiskurinn gefur lífinu lit, hann er númer eitt, tvö og þrjú, maður hefur ekki þekkt neitt annað í lífinu nema fisk. Ég reyni alltaf að vera jákvæður og glaður, ef ég væri það ekki væri ég helvítis fýlupúki,“ segir Magnús og skellihlær.

Magnús hefur m.a. það hlutverk að kenna erlendu starfsfólki frystihússins að flaka fisk og sú kennsla hefur skilað sér, starfsfólk er mjög fljótt að flaka og gerir það vel.
„Þau eru snillingar, það er ekki hægt að hafa fiskinn fallegri eftir flökunina hjá þeim,“ segir Magnús.
Það er ekki nóg með að Magnús í Hafnarfirði sé góður flakari, hann er líka góður söngvari enda brestur hann oft í söng í vinnslusalnum við mikla kátínu starfsfólks.
