Innherji

Stærsti hluthafinn selt í Play fyrir um milljarð en keypt í Icelandair

Hörður Ægisson skrifar
Play mun hefja Bandaríkjaflug sitt í vor en forstjóri félagsins hefur sagt að það gjörbreyti viðskiptalíkaninu og leiðir til þess að umsvifin aukast gríðarlega.
Play mun hefja Bandaríkjaflug sitt í vor en forstjóri félagsins hefur sagt að það gjörbreyti viðskiptalíkaninu og leiðir til þess að umsvifin aukast gríðarlega. Vísir/Vilhelm

Akta sjóðir, sem voru á meðal þeirra fjárfesta sem leiddu fjármögnun Play á árinu 2021, hafa á síðustu þremur mánuðum selt yfir þriðjung allra bréfa sinna í flugfélaginu.

Þegar mest var í september í fyrra áttu þrír sjóðir í stýringu Akta – Stokkur, HS1 og HL1 – samanlagt meira en þrettán prósenta hlut í Play, sem gerði þá að stærsta hluthafa félagsins á þeim tíma, en nú er hlutur þeirra orðinn minni en átta prósent.

Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Play í árslok 2021 en sjóðir Akta héldu áfram að minnka við stöðu sína í flugfélaginu í síðasta mánuði og seldu þá að lágmarki um 12 milljónir hluta að nafnverði, sem jafngildir tæplega tveggja prósenta eignarhlut. Eftir þá sölu eru Akta ekki lengur stærsti hluthafinn í Play.

Á sama tíma í desember fjárfesti hins vegar sjóðurinn Akta Stokkur í Icelandair Group, helsta keppinaut Play, og keypti þá samtals 526 milljónir hluta að nafnverði og er nú tólfti stærsti hluthafi flugfélagsins með 1,5 prósenta eignarhlut. Miðað við gengi bréfa Icelandair í dag, sem stendur í 1,95 krónum á hlut eftir að hafa hækkað um nærri 20 prósent á aðeins einum mánuði, er sá hlutur metinn á rúmlega einn milljarð króna.

Þrátt fyrir að hafa minnkað umtalsvert við hlut sinn í Play frá því í september á síðasta ári eru sjóðir Akta engu að síður þriðji stærsti hluthafi félagsins í dag, á eftir fjárfestingafélaginu Fiskisund og Birtu lífeyrissjóði. Samtals hefur Akta á þessum tíma selt liðlega 40 milljónir hluta að nafnverði í Play og má ætla að söluandvirðið – gengi bréfa félagsins hefur á tímabilinu verið að jafnaði í kringum 22 til 28 krónur á hlut – hafi því numið samtals um einum milljarði króna.

Á sama tíma og Akta hefur verið að losa um hlut sinn í Play hafa aðrir verðbréfasjóðir, meðal annars í stýringu Kviku eignastýringar og Íslandssjóða, verið að auka við hlut sinn í flugfélaginu.

Eftir að hafa selt öll bréf sín í Icelandair í árslok 2020 er sjóður í stýringu Akta kominn í hóp stærstu hluthafa félagsins eftir að keypt bréf fyrir um milljarð króna í síðasta mánuði.Vísir/Vilhelm

Akta sjóðir, sem voru samtals með um 60 milljarða króna í stýringu um mitt síðasta ár, komu fyrst inn í hluthafahóp Play í apríl í fyrra þegar þeir keyptu yfir 11 prósenta eignarhlut á genginu 15,875 krónur á hlut í lokuðu sex milljarða króna útboði. Sjóðirnir héldu þeim hlut sínum nokkrum mánuðum síðar þegar flugfélagið sótti sér ríflega fjóra milljarða króna til viðbótar í opnu hlutafjárútboði – gengið í því útboði var 20 krónur á hlut í tilfelli fagfjárfesta – samhliða skráningu á markað í júlí 2021.

Hlutabréfaverð Play stóð hvað hæst í lok október þegar það fór yfir 29 krónur á hlut. Í dag er gengið 24,3 krónur á hlut, eftir að hafa hækkað um liðlega sex prósent síðasta mánuð, og er markaðsvirði félagsins um 17 milljarðar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Akta fjárfestir í Icelandair á undanförnum misserum. Sjóðir félagsins, einkum vogunarsjóðirnir HS1 og HL1, veðjuðu þannig stórt á 23 milljarða króna hlutafjárútboð flugfélagsins í september 2020 þegar þeir tóku drjúga stöðu í fyrirtækinu. Skömmu síðar, samtímis því að hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um liðlega 70 prósent á síðustu tveimur mánuðum ársins 2020, seldu sjóðirnir öll bréf sín í félaginu með miklum hagnaði.

Í nóvember síðastliðnum flutti Play tæplega 17 þúsund farþega og var sætanýting félagsins 58,3 prósent borið saman við tæplega 68 prósent í október. Í tilkynningu frá félaginu sagði að þróunin í nóvember hefði verið mjög jákvæð þar til ný bylgja kórónuveirunnar skall á hér á landi og í Evrópu sem hafði haft áhrif á eftirspurn. Bókunarstaða félagsins til lengri tíma væri hins vegar sterk. Í síðasta mánuði greindi Play frá því að flugfélagið myndi hefja flug til Bandaríkjanna í apríl næstkomandi.

Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs námu tekjur Play 6,7 milljónum dala, rekstrarkostnaður var 12,3 milljónir dala og var því EBITDA- félagsins neikvætt um 5,6 milljónir dali á tímabilinu.


Tengdar fréttir

Vogunarsjóðir Akta skilað nærri 200 prósenta ávöxtun á einu ári

Tveir vogunarsjóðir í rekstri Akta, sem hafa fjárfestingarheimildir til að gíra skort- eða gnóttstöður sínar í skuldabréfum og hlutabréfum margfalt, hafa skilað sjóðsfélögum sínum nálægt 200 prósenta ávöxtun á undanförnum tólf mánuðum.

Fiskisund og Birta í hópi stærstu hluta­hafa Play

Fjárfestingafélagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson fjárfestir fer fyrir, og lífeyrissjóðurinn Birta verða í hópi þriggja stærstu hluthafa Play í kjölfar nýafstaðins hlutafjárútboðs hins verðandi flugfélags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×