Snjórinn kom ekki í veg fyrir fyrstu skóflustunguna að Holtahverfi, eða Holtahverfi norður eins og það heitir, sem á að rísa á sjávarklöppum norðarlega í bænum. Reiknað er með 300 íbúðir rísi á næstu árum.
„Fjölbýlishús, einbýlishús, raðhús og parhús þannig að hér ætlum við að geti orðið 700-800 manna byggð,“ segir Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs bæjarins aðspurður um hvers lags íbúðir verði byggðar í hverfinu.
Sömu, eða í það minnsta svipuð, lögmál gilda um fasteignamarkaðinn á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu síðustu misseri. Framboð á fasteignum hefur skroppið saman, fasteignaverð hækkað og eftirspurn eftir lóðum aukist.
Standa vonir til að uppbygging norðarlega í bænum, þar á meðal í hinu nýja Holtahverfi muni auka framboð á lóðum til muna í bænum.
„Akureyringum fjölgaði um 416 á síðasta ári og það er 2,2 prósent fjölgun sem umfram landsmeðaltal og það eru bara ánægjulegar fréttir, bara frábært að okkur sé að fjölga. Eftirspurn hefur verið gríðarleg á síðasta ári,“ segir Þórhallur.
Undanfarin ár hefur uppbygging á íbúðarhúsnæði á Akureyri farið fram í suðurhluta bæjarins, í átt að Kjarnaskógi sem margir landsmenn kannast við. Skóflustungan í dag markar ákveðin tímamót því að nú færist uppbyggingin á nýju húsnæði í norðurhluta bæjarins.
Þar er til að mynda annað stærra hverfi, Móahverfi, einnig í bígerð.
„Þar bætist við um það bil þúsund íbúða hverfi þar sem að gæti verið pláss fyrir 2.500 til 3.000 íbúa,“ segir Þórhallur og bætir við að ánægjulegt sé að í þessum nýju hverfum felist að hægt sé að nota innviði sem fyrir eru í rótgrónari hverfum í norðurhluta bæjarins.
Í Holtahverfi er hins vegar allt að fara á fullt.
„Hér verður vonandi byrjað að byggja í maí og ég reikna með að fyrstu íbúar geti flutt inn 12 til 16 mánuðum frá þeim tímapunkti“