Körfubolti

Davis sneri aftur í flottum sigri og Clippers unnu upp 35 stiga forskot

Sindri Sverrisson skrifar
Anthony Davis til varnar gegn James Harden í sigri Lakers gegn Nets í nótt.
Anthony Davis til varnar gegn James Harden í sigri Lakers gegn Nets í nótt. AP/Frank Franklin II

Los Angeles Lakers fagnaði endurkomu Anthony Davis með flottum sigri gegn Brooklyn Nets í NBA-deildinni í New York í gærkvöld, 106-96, þar sem LeBron James skoraði 33 stig.

„Mér finnst ég vera tilbúinn,“ sagði Davis eftir leik en hann spilaði 25 mínútur eftir að hafa misst af 17 leikjum í röð vegna meiðsla í vinstra hné, og skoraði átta stig.

James skoraði ekki bara 33 stig heldur tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar, en hápunkturinn var um miðjan fjórða leikhluta þegar hann stal boltanum og tróð honum, tvisvar í röð, og kom Lakers í 100-85. Ekki var að sjá að meiðsli trufluðu Davis nokkuð lengur þegar hann fagnaði félaga sínum af krafti.

James Harden var allt í öllu hjá Brooklyn með 33 stig, 12 fráköst og 11 stoðendingar, en Kevin Durant er enn úr leik vegna meiðsla og óbólusettur Kyrie Irving má ekki spila leiki í New York.

Tryggðu sér sigur með fjögurra stiga sókn í lokin

Hápunktur kvöldsins var þó ekki endurkoma Davis heldur endurkoma LA Clippers sem á einhvern ótrúlegan hátt unnu Washington Wizards þrátt fyrir að lenda 35 stigum undir.

Lið hefur ekki unnið upp slíkt forskot í NBA-deildinni síðan árið 2009, en rúsínan í pylsuendanum var fjögurra stiga sókn Luke Kennard þegar hann tryggði Clippers 116-115 sigur.

  • Úrslitin í nótt:
  • Philadelphia 117-107 New Orleans
  • Detroit 105-110 Denver
  • Toronto 125-113 Charlotte
  • Washington 115-116 LA Clippers
  • Boston 128-75 Sacramento
  • Brooklyn 96-106 LA Lakers
  • Houston 104-134 San Antonio
  • Golden State 130-92 Dallas
  • Portland 107-109 Minnesota

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×