Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku, sem hefst á morgun og stendur til 4. febrúar, með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að tannheilsunni. Þá á að koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri að tannlækningar barna eru svo til gjaldfrjálsar. Þrátt fyrir gjaldfrjálsar tannlækningar barna yngri en 18 ára þá hafa tannlæknar áhyggjur af því hvað mörg börn mæta aldrei til tannlækna í reglulegt eftirlit.
Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir er formaður Tannlæknafélags Íslands
„Kerfið er þannig á Íslandi að öll börn eiga rétt á tannlæknaþjónustu og hún er gjaldfrjáls að undanskildum 2.500 krónum, sem eru greiddar bara einu sinni á ári. Við köllum þetta komugjald en það er kannski rangnefni því þetta er bara greitt einu sinni á ári, þetta er ekki greitt í hverri komu. Það er náttúrlega áburðahluti foreldranna að koma með börnin í þetta reglulega eftirlit og sinna þessu,“ segir Jóhanna Bryndís.

Jóhanna Bryndís segir að það sé nokkuð vel vitað hvað hópurinn er stór af börnum, sem koma aldrei í eftirlit til tannlækna.
„Já, við teljum að þetta séu jafnvel hátt í fimm þúsund börn á Íslandi, sem koma ekki í árlegt eftirlit.“
Börn af erlendum uppruna skila sér líka illa til tannlækna.
„Þetta er ört stækkandi hópur á Íslandi þar sem íslenska er ekki móðurmál foreldranna og þá er bara virkilega mikilvægt að fræðslan og forvarnirnar séu á þeim tungumálum, sem að þau skilja. Það eru öll börn velkomin til tannlækna á Íslandi,“ segir formaður Tannlæknafélags Íslands.
Nánari upplýsingar um tannverndarvikuna 2022
