Innlent

Ekki séð eins mikinn snjó síðan 2008

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Snjórinn hefur fokið upp að ýmsum húsum og bílum í Eyjum og safnast þar saman.
Snjórinn hefur fokið upp að ýmsum húsum og bílum í Eyjum og safnast þar saman. Indíana Guðný Kristinsdóttir

Veður­við­varanir hafa verið í gildi á öllu Suður- og Vestur­landi síðan í gær. Í Vest­manna­eyjum hefur gríðar­legt fann­fergi valdið miklum truflunum á sam­fé­laginu og segjast Eyja­menn ekki muna eftir eins miklum snjó í rúman ára­tug.

Allar götur í Vest­manna­eyjum voru ó­færar í morgun eftir veður­ham næturinnar. Á­kveðið var að hætta að ryðja göturnar í gær vegna snjó­foks.

„Þannig það var bara vit­leysa að vera úti, það var bara stór­hættu­legt, sér­stak­lega á svona stórum snjó­ruðnings­tækjum að vera að skafa og sjá ekki neitt. Og þá geta menn þess vegna bara farið utan í bíla og slíkt þannig að við á­kváðum að þeir hættu að ryðja,“ segir Þórir Rúnar Geirs­son, varð­stjóri hjá lög­reglunni í Vest­manna­eyjum.

Veðrið versnaði veru­lega á öllu Suð­vestur­horni landsins seinni partinn í gær.

Til dæmis festust um 330 ferða­menn í Bláa lóninu seint í gær vegna lokunar á Grinda­víkur­vegi og í morgun fauk rúta út af Reykja­nes­brautinni.

Allt lokaði fyrr í gær

Í Eyjum hefur færð á vegum verið helsta vanda­málið.

„Fyrir­tæki og skemmti­staðir lokuðu snemma í gær­kvöldi og björgunar­fé­lag sá um að aka starfs­fólki þessara fyrir­tækja aftur heim til sín. Og björgunar­fé­lag er einnig búið að sinna því að keyra fólk í og úr vinnu eins og á ýmsar stofnanir í Eyjum, spítalann og elli­heimili og slíkt,“ segir Þórir Rúnar.

Hann segist sjálfur ekki muna eftir svo miklum snjó í Eyjum á síðustu árum.

„Ég er svo ný­lega fluttur aftur heim en mér eldri menn segja að síðast hafi verið svona mikill snjór árið 2008. Annars festir snjó yfir­leitt ekki í Eyjum en þetta er alveg á­gætt af snjó­komu.“

Ofsaveður í kortunum

En ó­veðrinu er hvergi nærri lokið þó veður­við­varanir á landinu falli úr gildi í dag.

Seint á morgun er nefni­lega gert ráð fyrir stormi eða ofsa­veðri á öllu landinu og gerir Veður­stofan ráð fyrir því að gefin verði út appel­sínu­gul við­vörun fyrir allt landið.

Þórir er eins og flestir orðinn ansi þreyttur á veðrinu.

„Ég er nú nokkuð þreyttur sko. Ég er farinn að hanga á netinu að leita mér að ferð á Tenerife. En við sjáum hvað gerist. Það er stutt í sumarið,“ segir Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×