Ólga hefur ríkt innan stofnunarinnar í nokkurn tíma og sendu starfsmenn MMS frá sér ályktun til ráðuneytisins í nóvember þar sem kallað var eftir afsögn forstjórans. Arnór og yfirstjórn MMS fékk falleinkunn í áhættumati sem mannauðsfyrirtækið Auðnast framkvæmdi að beiðni menntamálaráðuneytisins í fyrra.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Arnór hafi komist að samkomulagi um að hann komi þar til starfa. Verkefni Arnórs fyrir ráðuneytið muni fyrst um sinn tengjast þátttöku Íslands í alþjóðlegum könnunum á hæfni nemenda.
Hefur ráðherra farið þess á leit við Thelmu Cl. Þórðardóttur, lögfræðing og staðgengil forstjóra, að hún gegni forstjórastöðunni tímabundið í einn mánuð til að byrja með.
Arnór er fyrsti forstjóri Menntamálastofnunar og hefur gegnt því starfi í um sjö ár. Áður starfaði hann hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem skrifstofustjóri, þróunarstjóri og deildarstjóri.
Uppsögn starfsmanns dæmd ólögmæt
Héraðsdómur komst í fyrra að þeirri niðurstöðu að Arnór hafi brotið stjórnsýslulög þegar hann sagði starfsmanni upp fyrirvaralaust árið 2019. Var íslenska ríkið dæmt til að greiða starfsmanninum tæpar níu milljónir króna í bætur.
Í áðurnefndu áhættumati sem mannauðsfyrirtækið Auðnast framkvæmdi sagðist helmingur starfsfólks telja sig hafa orðið vitni að eða upplifað einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni, eða ofbeldi á vinnustað.
Arnór gerði athugasemdir við áhættumatið. Taldi hann að vinnubrögð, framsetning og ályktanir þess stæðust í mörgum atriðum ekki faglegar og eðlilegar kröfur um nærgætni, hófsemd og stillingu við úrvinnslu mála af þessum toga.
Fréttin hefur verið uppfærð.