Körfubolti

Elvar vann stórsigur í Íslendingaslag | Tryggvi og félagar töpuðu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már í leik með Antwerp Giants.
Elvar Már í leik með Antwerp Giants. HLN

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Antwerp Giants unnu 32 stiga stórsigur gegn Þóri Þorbjarnarsyni og félögum hans í Zwolle í belgísku deildinni í körfubolta í kvöld, 102-70. Þá þurftu Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza að sætta sig við tíu stiga tap gegn Gran Canaria á Spáni, 86-76.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik í leik Antwerp Giants og Zwolle, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 50-44, heimamönnum í Antwerp í vil.

Elvar og félagar tóku svo öll völd á vellinum í þriðja leikhluta þar sem þeir juku forskot sitt í 25 stig áður en komið var að lokaleikhlutanum. Þeir unnu að lokum öruggan 32 stiga sigur, 102-70.

Elvar Már skoraði ellefu stig fyrir Antwerp Giants, en ásamt því tók hann fjögur fráköst og gaf hvorki meira né minna en þrettán stoðsendingar. Þórir skoraði tólf stig fyrir Zwolle,  tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Á Spáni þurftu Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza að sætta sig við tíu stiga tap gegn Gran Canaria, 86-76, í leik þar sem annar leikhluti varð þeim að falli. Tryggvi skoraði átta stig fyrir Zaragoza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×