Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins og Matt Miller, samskiptaráðgjafi Öryggisráðs Bandaríkjanna, fræddu áhrifavaldana um stöðuna á fjarfundi í gær, fimmtudag.
Markmið fundarins var að gera TikTok-stjörnunum kleift að afsanna upplýsingaóreiðu og falsfréttir og aðstoða fylgjendur sína við að átta sig á stöðunni í Úkraínu.
„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er gríðarlega mikilvægur vettvangur þar sem bandarískur almenningur les um nýjasta nýtt. Svo við viljum að þið fáið nýjustu upplýsingar frá traustri heimild,“ sagði Rob Flaherty, yfirmaður stafrænnar stefnumörkunar hjá Hvíta húsinu, á fundinum en The Washington Post hefur upptöku af honum undir höndum.
Ríkisstjórn Joes Biden hefur áður fengið áhrifavalda til liðs við sig en í fyrra var hópur þeirra fenginn til að hvetja almenning til að þiggja bóluefni gegn Covid-19.
Ekki fyrstir til að nýta TikTok
Í frétt Vice segir að yfirvöld í Rússlandi hafi fengið sömu hugmynd og fengið rússneska áhrifavalda til að ýta undir stuðning við innrás í Úkraínu.
„Margar herferðir hafa verið skipulagðar á leynilegri Telegram-rás, sem segja áhrifavöldum hvað á að segja, hvar á að taka upp myndbönd, hvata myllumerki á að nota og hvenær á að birta myndbönd,“ segir í frétt Vice.