Sex íslenskar konur sem nema dýralækningar í Košice í Slóvakíu ákváðu á dögunum að hefja söfnun til stuðnings flóttafólks sem streymir frá Úkraínu í kjölfa innrásar Rússa í landið. Síðan þá hafa fleiri bæst í hópinn, íslenskir og erlendir skólafélagar þeirra.
„Við erum mikið að fara í búðir að kaupa hitara, mat og dýnur. Svo höfum við líka verið að gera samlokur og fara með á lestarstöðina þar sem eru flóttamenn,“ segir Brynja Aud Aradóttir, ein þeirra sem standa að söfnuninni.

Košice er í um klukkutíma akstursfjarlægð frá landamærum Slóvakíu og Úkraínu og hafa dýralæknanemarnir ekki haft tök á að fara oft þangað. Nauðsynin er líka næg í bænum sjálfum þar sem mikill fjöldi flóttafólks hefur komið þangað.
Við fórum í gær á lestarstöðina og hittum fólk þar. Það er búið að setja upp gámahús þar og þar er mikið streymi af fólki sem er samt að stoppa í stuttan tíma,“ segir Brynja.
Hún segir landamæri Slóvakíu vera galopin fyrir flóttafólk. „Þeir hleypa öllum inn, þú þarf ekki vegabréf eða neitt. Þeir hleypa öllum sem þurfa að koma í gegn, eins og er,“ segir hún.
Þakklát fyrir hjálpina
Sem áður segir hafa nemarnir safnað ríflega fimm milljónum króna. Meirihluti fjárins hefur komið frá Íslendingum sem hafa lagt inn á sérstakan söfnunarreikning en einnig hafa erlendir skólafélagar lagt sitt af mörkum, bæði með framlögum og vinnu.
„Þetta er búið að ganga ótrúlega vel, þetta fór fram úr öllum vonum og við erum bara mjög heppin og þakklát með það hvað fólk er til í að hjálpa okkur og að hjálpa flóttamönnum,“ segir Brynja.

Sýna í hvað fjármunir fara
Dýralæknanemarnir halda úti Facebook-síðunni Söfnun fyrir flóttamenn frá Úkraínu og þar deila þeir upplýsingum um hvað sé gert við þá fjármuni sem safnast hafa. Til að mynda greindu þeir frá því á dögunum að verslað hafi verið í matvöruverslun fyrir 255.938 krónur.

Á síðunni er einnig að finna allar helstu upplýsingar um söfnunina. Mikilvægustu upplýsingarnar, reikningsupplýsingar, eru eftirfarandi:
Reikningsnúmer: 0123-15-016142
Kennitala: 220693-4149
Aur: 777-6558