Davíð Már Bjarnarson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að fyrstu björgunarsveitarmenn séu komnir á vettvang. Staðsetningin sem neyðarsendirinn gaf upp virðist ekki hafa verið nægilega nákvæm og mikill þungi hefur færst í leitina.
„Þetta er erlendur ferðamaður sem virðist vera einn á ferð og nú er búið að óska eftir fjölda af snjósleðum og jeppum, snjóbílum og leitarhundum frá Suðurlandi, Vesturlandi og Suðvesturlandi. Þetta er orðin ansi stór aðgerð. Það eru komnir þarna einhverjir tugir manns á vettvang og eru að leita þarna,“ segir Davíð Már og bætir við að leitarskilyrði séu nokkuð erfið.
Fleiri eru að bætast í leitina og gert er ráð fyrir því að á annað hundrað björgunarsveitarmenn komi til með að slást í hópinn. Davíð segir að veðrið hafi blessunarlega skánað töluvert en þó sé kalt og nokkur úrkoma. Víða geti leynst krapi og upplýsingar hafi borist um að konan hafi verið köld og hrakin.
„Þetta er orðið ansi umfangsmikið,“ segir Davíð Már Bjarnarson upplýsingafulltrúi Landsbjargar.