Valeri Karpin, landsliðsþjálfari Rússlands, greindi frá þessu á blaðamannafundi. Hann sagðist hafa rætt við Dzyuba í síma og hann hafi beðist undan því að vera valinn í landsliðið vegna stöðunnar í Úkraínu þar sem margt skyldfólk hans býr.
Dzyuba hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að tjá sig ekki um og fordæma ekki innrás Rússa í Úkraínu, meðal annars af Oleksandr Zinchenko, leikmanni Manchester City, og Everton-manninum Vitaly Mykolenko.
Dzyuba sagðist vera tregur til að tjá sig um stríðið í Úkraínu, hann skammaðist sín ekki fyrir að vera Rússi og skildi ekki af hverju ástandið bitnaði á rússnesku íþróttafólki.
Hinn 33 ára Dzyuba leikur með Zenit í St. Pétursborg, liðinu sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti styður.
Dzyuba hefur leikið 55 landsleiki og skorað þrjátíu mörk. Framherjinn stóri og stæðilegi er markahæstur í sögu rússenska landsliðsins ásamt Aleksandr Kerzhakov.