Einar Bragi kemur til FH frá HK eftir að hafa slegið í gegn með nýliðunum í Olís-deildinni í vetur. Einar Bragi, sem leikur einnig með U20-landsliði Íslands, hefur skorað 72 mörk í 12 leikjum fyrir HK í Olís-deildinni í vetur en allt útlit er fyrir að liðið kveðji deildina í vor.
„Það er virkilega ánægjulegt að Einar Bragi hafi valið FH sem næsta skref á sínum ferli. Hann passar fullkomlega inn í okkar félag. Einar Bragi er einn efnilegasti leikmaður landsins og hefur sýnt sig og sannað í Olísdeildinni þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur góða nærveru sem skiptir okkur miklu máli og fyrstu kynni lofa svo sannarlega góðu,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, í tilkynningu.