Antony skoraði sigurmark Ajax á 86. mínútu. Hann klæddi sig úr treyjunni og hélt á henni fyrir framan stuðningsmenn Ajax, í anda Lionels Messi. Fyrir það fékk hann gult spjald. Antony fékk svo annað gult spjald og þar með rautt fyrir að tefja í uppbótartíma.
Hann kippti sér lítið upp við það og eftir leikinn fór hann til stuðningsmanna Ajax til að fagna með þeim. Antony klæddi sig úr treyjunni í fagnaðarlátunum. Kannski ætlaði hann að gefa ungum stuðningsmanni Ajax treyjuna eða ramma hana inn og hengja upp á vegg heima hjá sér. Antony komst ekki svo langt síðan fullorðinn stuðningsmaður Ajax tók treyjuna af honum og labbaði í burtu.
Goed opletten, want voordat je het weet is je shirt weg #AJAFEY pic.twitter.com/ebBVzhBHs6
— ESPN NL (@ESPNnl) March 20, 2022
Mikið gekk á í leiknum á Johann Cryuff leikvanginum í Amsterdam í gær. Stuðningsmenn Ajax kveiktu til að mynda óvart í fána fyrir leik.
Ajax er með tveggja stiga forskot á PSV Eindhoven á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar. Feyenoord er í 3. sætinu.
Hinn 22 ára Antony hefur skorað tólf mörk fyrir Ajax í öllum keppnum í vetur. Hann er á sínu öðru tímabili hjá hollenska liðinu.