Talið er að um 300 þúsund manns séu enn í Maríupól, sem víðast hvar er rústir einar eftir ítrekaðar árásir Rússa. Varaforsætisráðherra Úkraínu segir Úkraínumenn og Rússa hafa komist að samkomulagi um átta „mannúðarhlið“ frá borgum Úkraínu í dag - þó ekki frá Maríupól, þar sem Úkraínumenn neituðu kröfu Rússa frá því í gær um að leggja niður vopn. Falli Maríupol í hendur innrásarhersins þýðir það að yfirráðasvæði Rússa og aðskilnaðarsinna í Donetsk, Luhansk og á Krímskaga tengist landleiðina.
Breska varnarmálaráðuneytið segir þó helsta markmið Rússa nú að ná yfirráðum yfir Kænugarði. Að minnsta kosti sex eru sagðir hafa látist í árás Rússa á verslunarmiðstöð í borginni í nótt. Öflug sprenging er sögð hafa gjöreyðilagt bifreiðar á bílastæðinu fyrir utan miðstöðina og skilið eftir sig gíg og eldur sagður hafa kviknað í nærliggjandi húsum.
Stórt svæði undir í árásinni
Óskar Hallgrímsson íbúi í Kænugarði fór að vettvangi árásarinnar í morgun.
„Við urðum vör við sprengingar í nótt og sérstaklega klukkan fimm varð svakaleg sprenging og mig grunar að þetta hafi verið það, því það komu fljótlega myndir af því á helstu fjölmiðla að það væri mikill eldur og annað,“ segir Óskar.
„Þetta var rosalega stórt svæði en úkraínski herinn, þeir rifu af mér myndavélina og báðu mig að eyða nokkrum myndum því það er greinilega eitthvað þarna í kring sem þeir vilja alls ekki að sé verið að taka myndir af. Og þegar við vorum þarna fór ein loftvarnarsprengjan í gang, ég sá hana skjótast þarna upp í himininn. [...] En þeir hleyptu okkur í rauninni ekkert að, það eina sem við sáum voru brotnir gluggar og eitthvað. Þannig að ég sá í rauninni ekki skaðann eins og hann var í heildina.“
35 klukkustunda útgöngubanni verður komið á í Kænugarði frá klukkan 20 í kvöld til sjö á miðvikudagsmorgun.
„Andinn í borginni er ágætur. En það er náttúrulega mikill ótti í flestum,“ segir Óskar.
Þá er ammóníumleki frá efnaverksmiðju í borginni Súmí í norðausturhluta landsins sagður hafa mengað útfrá sér á rúmlega tveggja kílómetra svæði, eftir árásir Rússa á verksmiðjuna. Rússar eru jafnframt sagðir hafa gert fyrstu árásir á íbúðarhús í hafnarborginni Odesa snemma í morgun. Joe Biden Bandaríkjaforseti fer til Póllands á föstudag, þar sem hann mun leggja til enn frekari þvinganir gegn Rússum vegna innrásarinnar.