Eins og til að drýgja djammið hefur verið fundið upp fyrirbærið leigubílaröð. Að vísu finn ég fá dæmi um að þar sé dansað af fögnuði yfir lífinu, þó að það hendi alveg áreiðanlega.
Af ummælum að dæma, má eiginlega frekar segja að þetta sé eins og refsing eða hreinsunareldur fyrir synduga, einkum á veturna þegar fólk er látið híma þar í kulda og trekki. Eins og verið sé að segja fólki, sem hefur gerst svo djarft að neyta áfengis, hversu sakleysisleg sem sú athöfn kann að hafa verið, að það eigi ekkert gott skilið. Og það er enginn hörgull á reynslusögum á samfélagsmiðlum:
„... og svo var skellt sér í bæinn, á 22 og dansað helling svo stóð ég endalaust í leigubílaröð.. kom heim hálf 6 ... ótrúlega skemmtilegt djamm, fyrir utan að standa í leigubílaröð og krókna úr kulda...“
„Ekki löngu seinna drifum við okkur í leigubílaröðina í skítakulda og það var yndislegt að kúra saman eftir þetta allt saman.“
„Good time í mínum huga er hætt að vera trylltur dans á skemmtistað, tekílaskot og leigubílaröð í snjóstormi...“
„Um helgar gista oft einhverjir aðrir... í rekkjum íbúðarinnar. Stundum eru það vinir og vandamenn sem fá að nota sófann ef vera skyldi að ölvun og leigubílaröð hentaði ekki viðkomandi...“
„Leigubílaröðin var þvílík, mætti halda að það hefði verið menningarnótt, þannig að við gáfum röðinni puttann og röltum heim á Skúló, fyrri partinn kvartandi undan skónum og seinni partinn trítlandi frjálsar á tánum."
„Halldóra hans Svana var svo innilega elskuleg að skutla öllum heim eftirá enda var skítkalt úti og leigubílaröðin versta hugmynd síðan ullarnærbuxur voru í tísku.“
„... fórum í leigubílaröð dauðans, einn og hálfur tími að bíða eftir bíl. Hiti undir frostmarki og damm hvað ég hefði viljað vera í buxum. Var lengi að ná upp yl í skankana undir tveimur dúnsængum og bleikum náttkjól.“
„... getum við ekki dregið þessa eyju eitthvað sunnar..kanski eru ísjakarnir að reyna það..mjaka okkur neðar á kortið.. maður er nú ekkert að biðja um strandblak og Pina colada, bara volgan bíl á morgnana og þjáningarlausa leigubílaröð um helgar..eitthvað svoleiðis...“
Dómstóll götunnar
Það er þarna á gangstéttum borgarinnar sem rómantískum stefnumótum lýkur. Það er nefnilega óhægt um vik að panta leigubíla beint á hótel eða veitingastaði þegar líður á nóttina um helgar, bíða inni í hlýjunni, sötra rauðvín og horfast í augu yfir kertaljósum. Nei, fólki er uppálagt að skakklappast prúðbúið og illa skóað að næstu leigubílaröð og bíða þar með öðrum nátthröfnum.
Og þar getur ýmislegt gerst. Ef blaðað er í fréttum má sjá að óþolinmóður maður reyndi að troðast fram fyrir og fékk einn á lúðurinn; eftir fréttinni að dæma virðist atvikið hafa mætt skilningi hjá lögreglu, sem sá ekki ástæðu til að aðhafast neitt. Í annarri frétt kemur fram að fjórir menn hafi troðist fram fyrir og beitt piparúða þegar þeir urðu fyrir aðkasti. Svo létu þeir sig hverfa. Það er eins og maður sé að lesa um bankarán. Kannski er leigubílaröðin það sem næst kemst dómstól götunnar. Er virkilega engin betri lausn í boði?
Nei, fólki er uppálagt að skakklappast prúðbúið og illa skóað að næstu leigubílaröð og bíða þar með öðrum nátthröfnum.
Nýtt frumvarp á leiðinni
Í pistli sem ég reit í síðustu viku kom fram að ástandið er sérstaklega slæmt þessa dagana og mánuðina og erfiðara en nokkru sinni að fá leigubíl. Einnig var dregið fram að á síðustu 20 árum hafi útgefnum rekstrarleyfum leigubílstjóra fækkað á Suðurnesjum, þ.e. höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesbæ, þrátt fyrir mikla fjölgun íbúa og margfalt fleiri ferðamenn. Hvers vegna stjórnvöld hafa kosið að draga úr fjölda leigubílstjóra þegar farþegum fjölgar er illskiljanlegt.
Nú hefur samgönguráðuneytið lagt fram nýtt frumvarp, þar sem til stendur að afnema fjöldatakmarkanir rekstrarleyfa og leggja niður stöðvarskyldu leigubílstjóra, og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig því reiðir af í þinginu. Tilefnið er að þessar hindranir á aðgengi að íslenska leigubílamarkaðnum stangast á við regluverk EES og er hafin frumkvæðisathugun á því af hálfu ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.
Frumvarpið fjallar ekki sérstaklega um Uber eða skyldar leigubílaþjónustur, en þó er ekki gert ráð fyrir að það þurfi að vera gjaldmælir í leigubílum ef ekið er fyrir fyrirfram umsamin heildargjöld. Ef það gengur eftir gæti gluggi opnast fyrir slíka þjónustu – eða hvað?
Hvað þarf til að keyra leigubíl?
Ef frumvarpið verður að veruleika getur hver sem er sótt um leyfi til leigubílaaksturs að uppfylltum skilyrðum sem felast einkum í auknum ökuréttindum eða meiraprófi og að hafa lokið námskeiði fyrir rekstrarleyfishafa í Ökuskólanum í Mjódd.
Þetta gæti orðið nokkur kjarabót fyrir „harkara“ eða afleysingabílstjóra, sem hingað til hafa þurft að uppfylla öll þessi skilyrði, en til að fá draum sinn uppfylltan um að vinna sem leigubílstjórar hafa þeir þurft að leigja bíla af rekstrarleyfishöfum með ærnum tilkostnaði. Ekki bara í daga, vikur eða mánuði, heldur árum saman!
Undanfarið hefur ekki aðeins verið skortur á leigubílstjórum, heldur einnig á hörkurum. Ef til vill velja þeir frekar að harka sem skutlarar utan við kerfið til að losna við að uppfylla skilyrði um hin ýmsu leyfi. Þá geta þeir líka gert út sinn eigin bíl. Ef eftirlitskerfi er of íþyngjandi, getur það nefnilega farið að vinna gegn markmiðum sínum.
Að jafnaði hefur þurft 1.300 til 1.700 daga reynslu af harki hjá afleysingabílstjórum til að fá úthlutað rekstrarleyfi, þar sem leyfin eru af skornum skammti og nýjum einungis úthlutað þegar einhver hættir. Svo gerðist það í lok síðasta árs, að einungis sóttu 42 um 50 leyfi og komust því allir að. Skyndilega skipti reynsla af leigubílaakstri engu máli. Og ótrúlegt en satt, þá virðist bara enginn vera að panikkera yfir því. En fulltrúar kerfisins geta þó andað léttar, því búist er við að fleiri sæki um við næstu úthlutun og þá fer reynslan af harkinu aftur að skipta máli.
Skyndilega skipti reynsla af leigubílaakstri engu máli.
Flókið og kostnaðarsamt leyfisferli
Það er reyndar áhugavert að skoða í hverju rekstrarleyfisnámið felst, en það stendur yfir í fimm heila daga og þurfa ekki aðeins leyfishafar, heldur einnig harkarar að ljúka námskeiðinu. Þetta eru nota bene allt bílstjórar sem komnir eru með aukin ökuréttindi og hafa lokið meiraprófi.
En hvað er svona mikilvægt að kenna verðandi leigubílstjórum – að annars sé ekki hægt að hleypa þeim út á göturnar? Jú, til þess að fá leyfi til að aka leigubíl þurfa þeir að sitja í kennslustofu í fimm heila daga og hlýða á fyrirlestra um fagmennsku, bókhald og almenn skattskil, rekstur og fjármögnun, vinnulöggjöf og skaðabótarétt og vátryggingar.
Af hverju bílstjórar eru teknir út fyrir sviga þegar kemur að sjálfstæðum atvinnurekendum og settir á skólabekk með þessum hætti fylgir ekki sögunni. Hafa ber í huga að þetta er fólk með fjölbreyttan bakgrunn, sumir hafa viðskiptapróf og hafa jafnvel verið í rekstri. Eftir stendur, að miklar kvaðir eru lagðar á fólk sem dreymir um að aka leigubíl, og ekki er tekið á því í nýja frumvarpinu.
Enda segir í umsögn Samkeppniseftirlitsins: „Hins vegar felur frumvarpið í sér flókið og kostnaðarsamt leyfiskerfi með tilheyrandi samkeppnishömlum sem leiða til hærra verðs til neytenda og lakari þjónustu við þá.“
Forarsvað reykvískrar menningar
En þangað til rætist úr, þá verðum við að gera okkur leigubílaröðina að góðu. Efalaust ekki séríslensk uppfinning, þó að ég hafi ekki rekist á slíkar raðir erlendis nema á flugvöllum og lestarstöðum. Þegar síðasta pistli var deilt á Bákninu burt á fésbókinni setti Guðmundur Óli Pálmason inn athugasemd, þar sem hann sagði að konan sín væri frá Líbanon en hafi líka búið á Bretlandi. Þau hafi farið í bæinn um helgina og hún upplifað leigubílaröð í fyrsta skipti „og átti ekki orð til að lýsa furðu sinni og hneykslun á þessu ástandi, enda er þetta gjörsamlega út í hött. Við stóðum í ca 30-45 mín í röðinni í skítakulda.“
Það fer vel á því að ljúka pistlinum á skemmtilegri reynslusögu af djammi og leigubílaröð sem birt var á einni bloggsíðunni:
„En eins og allt, hjá þeim sem búa úti í rassgati, þá endaði þetta náttúrulega í leigubílaröðinni ... Ég lít samt á þessa klukkutíma leigubílaröð sem hápunkt helgarinnar. Í þessu forarsvaði reykvískrar menningar stóðum við. Ég með brjóstsviða frá ógeðispulsu og rommíkóki, ásamt furðulegum harðsperrum í fótleggjunum og almenns biturleika yfir því að þurfa að vera þarna á annað borð. Það gerðist svolítið merkilegt þarna í leigubílaröðinni. Þegar röðin var alveg að koma að okkur og ég leit til baka yfir allan mannskarann, fann ég fyrir stolti yfir að hafa massað alla þessa röð. Á því augnabliki gerði ég mér grein fyrir að lífið mitt er það ömurlegt, að það er komið hringinn. Maður tekur svona hugljómunum með jafnaðargeði, kinkar kolli og yppir öxlum, ég er þó allavegana ekki fáviti. Nokkru síðar kem ég auga á Valla, sem var að massa einhverja hot gellu og ég leyfði honum að cutta in line og hann borgaði leigubílinn. Score!!!“
„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í óborganlegum þáttum Fóstbræðra og fórnaði höndum. Í þessum pistlum sem birtast vikulega á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér að „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.