Handbolti

Seinni bylgjan: Ásbjörn í miklu basli eftir kinnhestinn

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir í Seinni bylgjunni leyfðu sér að grínast aðeins með markametsfíaskóið eftir að í ljós kom að 500 mörk vantaði upp á til að Ásbjörn Friðriksson næði metinu.
Strákarnir í Seinni bylgjunni leyfðu sér að grínast aðeins með markametsfíaskóið eftir að í ljós kom að 500 mörk vantaði upp á til að Ásbjörn Friðriksson næði metinu. Stöð 2 Sport

„Þetta var ljótt djók. Þetta er bara leiðinlegt fyrir hann,“ sagði Róbert Gunnarsson um FH-inginn Ásbjörn Friðriksson í Seinni bylgjunni í gærkvöld eftir gríninnslag tengt markametsfíaskóinu í síðustu viku.

Ásbjörn náði sér engan veginn á strik gegn Stjörnunni um helgina þegar FH tapaði 27-24 á heimavelli, eftir sigurinn frækna gegn Val í síðustu viku. Hann skoraði úr þremur af níu skotum sínum.

Svo virtist sem að það sæti í Ásbirni að hafa haldið að hann hefði slegið markametið í efstu deild en svo verið sviptur því rækilega daginn eftir þegar blaðamaðurinn Óskar Ófeigur Jónsson upplýsti þjóðina um það að Valdimar Grímsson hefði skorað tæplega 500 mörkum meira.

Raunar hefur skotnýting Ásbjörns verið slæm alveg frá markinu gegn Val sem FH-ingar héldu að hefði tryggt honum markametið:

„Frá þessu marki hefur Ásbjörn verið í basli. Hann er með hræðilega skotnýtingu alveg frá því að hann skoraði þetta mark og Óskar Ófeigur gaf honum eiginlega kinnhest,“ sagði Stefán Árni Pálsson, þáttastjórnandi Seinni bylgjunnar, og birti innslag með tilvísun í fíaskóið á Óskarsverðlaunahátíðinni.

„Mér finnst þetta aðallega bara mjög leiðinlegt fyrir hann,“ sagði Róbert og fann til með Ásbirni, rétt eins og Ásgeir Örn Hallgrímsson. „Já, hann átti engan þátt í þessu,“ bætti Ásgeir við.

Klippa: Seinni bylgjan - Ásbjörn átt erfitt uppdráttar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×