AFP greindi upprunalega frá því í kvöld að maðurinn hafi verið ákærður en það reyndist síðar ekki rétt. Að því er kemur fram í frétt Reuters var maðurinn ekki nafngreindur en það voru þýsk yfirvöld sem bentu þeim portúgölsku á að karlmaðurinn væri grunaður.
Lögreglan í Þýskalandi greindi frá því sumarið 2020 að maður að nafni Christian Brueckner, væri grunaður í tengslum við málið og að hann hafi líklega orðið Madeleine að bana. Portúgölsk yfirvöld voru þó ekki tilbúin til að fullyrða að Madeleine væri látin og rannsökuðu málið enn sem mannshvarf.
Út frá þeim upplýsingum sem saksóknarar í Portúgal gáfu frá sér í dag má álykta að maðurinn sem hefur nú verið ákærður sé hinn 45 ára gamli Brueckner en Madeleine hvarf sporlaust úr íbúð foreldra sinna í Portúgal þann þriðja maí 2007. Á þeim tíma bjó Brueckner á svæðinu en hann var þekktur innbrotsþjófur og barnaníðingur.
Lögreglan í Þýskalandi telur að hann hafi brotist inn í íbúðina þar sem Madeleine var og myrt hana skömmu síðar en hann er einnig grunaður um aðild í öðrum málum þar sem ung börn hafa horfið.
Brueckner situr nú í fangelsi í Þýskalandi fyrir nauðgun en hann neitar að hann tengist máli McCann. Guardian hefur það eftir lögmanni hans að hann hafi þó ekki verið ákærður.