Fótbolti

Segja Ekvadora hafa teflt fram Kólumbíumanni og vilja HM-sæti þeirra

Sindri Sverrisson skrifar
Byron Castillo í leik gegn Síle í nóvember sem Ekvador vann, 2-0.
Byron Castillo í leik gegn Síle í nóvember sem Ekvador vann, 2-0. Getty/Marcelo Hernandez

FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, staðfesti í dag að beiðni hefði borist frá knattspyrnusambandi Síle um rannsókn á því hvort að Ekvador hafi teflt fram ólöglegum leikmanni í undankeppni HM karla.

Ef Sílemönnum verður að ósk sinni komast þeir á HM í Katar í lok árs á kostnað Ekvadors en FIFA hefur ekkert gefið út varðandi málið annað en að beiðnin hafi borist.

Ekvador endaði í 4. sæti undankeppninnar í Suður-Ameríku og tók þar með eitt af fjórum öruggum sætum Suður-Ameríku á HM. Síle endaði í 7. sæti, sjö stigum neðar en Ekvador.

Sílemenn hafa hins vegar lagt fram gögn sem þeir telja sýna að Byron Castillo, sem lék með Ekvador í undankeppninni, sé í raun og veru Kólumbíumaður og ekki gjaldgengur með Ekvador. Þeir benda á að ef að Ekvador yrði úrskurðað 3-0 tap í þeim leikjum sem Castillo spilaði þá ætti Síle að fá HM-sæti.

HM í Katar hefst 21. nóvember og búið er að draga í riðla. Ekvador lenti í riðli með heimamönnum í Katar, Hollandi og Senegal. Undankeppninni er þó ekki alveg lokið og enn eru fimm laus sæti í gegnum umspil sem ræðst í sumar.

Dæmi er um það frá árinu 2016 að FIFA breyti úrslitum í HM-undankeppninni í Suður-Ameríku vegna ólöglegs leikmanns. FIFA úrskurðaði Bólivíu 3-0 tap í tveimur leikjum þar sem liðið tefldi fram leikmanni frá Paragvæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×