Skoðun

Kjósið úr sófanum

Halldór Friðrik Þorsteinsson skrifar

Fyrir fjórum árum reis fjöldi sjóðfélaga Frjálsa lífeyrissjóðsins upp úr sófanum. Þeim ofbauð að heyra fréttir um fjárfestingar Arion banka í sílíkonverksmiðjurekstri sem hafði kostað sjóðinn mikla fjármuni. Eitt af því sem sjóðfélagar kröfðust var að kosningar yrðu rafrænar til þess að raunverulegt sjóðfélagalýðræði fengi þrifist, þvert á bankaræðið sem verið hafði allsráðandi. Nú er þetta baráttumál loksins í höfn og sjóðfélagar geta kosið rafrænt í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins næstu daga, fyrir aðalfundinn sem verður mánudaginn 23ja maí. 

Hvers vegna að kjósa? 

Ílífeyrissjóðnum eru tugir þúsunda einstaklinga og sjálfsagt spyrja sumir sig hvort þetta skipti einhverju? Jú, þátttaka sjóðfélaga og aðhald að stjórn skiptir svo sannarlega máli, enda veldur hver á heldur. Árangur lífeyrissjóða er mismunandi góður og ef árangur lífeyrissjóðs reynist lakari ár eftir ár, miðað við sambærilega sjóði, þá verður minni lífeyrir til skiptanna og fólk kemst mögulega síðar á eftirlaun en það ætlaði sér. Þannig eru hagsmunir sjóðfélaga miklir og þeir eiga lýðræðislegan rétt á að láta sig málefni eigin lífeyrissjóðs varða. 

Endurnýjun er nauðsynleg 

Ég fagna því sérstaklega að sjá tvö ný framboð hæfra einstaklinga til stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins, þeirra Yngva Harðarsonar og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur. Það er þörf á endurnýjun í stjórn sjóðsins og rödd sjóðfélaga þarf að vera sterkari. Ég hvet því alla sjóðfélaga Frjálsa lífeyrissjóðsins til að nýta kosningaréttinn. Hægt er að kjósa beint úr sófanum með því að smella á hlekkinn. Það gæti skilað sér í hærri lífeyri þegar fram í sækir.  

Höfundur er sjóðfélagi og fyrrum stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum.




Skoðun

Sjá meira


×