Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég er B-maður sem hefur með aldrinum þróast í A-týpu og vakna yfirleitt fyrir klukkan sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Flestir dagar byrja á því að ég fæ mér gott kaffi, spjalla við kærustuna og renni yfir fréttir dagsins í símanum.
Næsta verk er að hreyfa sig. Útihlaup eru uppáhaldshreyfingin mín. Ég bý innan við kílómetra bæði frá Elliðaárdalnum og Fossvogsdalnum og tek morgunhlaup í öðrum hvorum dalnum þrisvar eða fjórum sinnum í viku.
Suma daga skelli ég mér í Laugardalslaugina og einstaka sinnum reyni ég að ögra eigin stirðleika á jógadýnunni. Þá er maður klár í vinnudaginn.“
Hvað hefur komið þér skemmtilega á óvart við að vera orðinn 50+?
Það kemur skemmtilega á óvart að sextugsaldurinn, sem einhvern tímann leit út sem fordyri elliheimilisins, einkennist af virkni, lífsgleði og rómantík.
Gamli antisportistinn sá alls ekki fyrir sér að vera í daglegri hreyfingu kominn yfir fimmtugt og í mun betra formi en þegar hann var þrítugur.
Mér datt heldur ekki í hug að ég yrði orðinn hjólhýsapakk og á ferð og flugi um landið allt sumarið með lítinn ferðavagn.
Svo er ótrúlega skemmtilegt að horfa á börnin sín vaxa úr grasi og breytast í flott fullorðið fólk. Ég á þrjú og tvö bónusbörn til viðbótar þannig að það eru endalaus ánægjuefni.“
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnin hjá Félagi atvinnurekenda eru jafngríðarlega fjölbreytt og félagsmennirnir, þannig að það er erfitt að nefna eitt ákveðið.
Og þó; ég er nýbúinn með verkefni sem mér fannst mjög skemmtilegt. Við settum í loftið hlaðvarpsþátt sem er kallaður Kaffikrókurinn og er aðgengilegur á YouTube og Spotify.
Þar tók ég viðtöl við oddvita allra átta framboðanna sem fengu menn kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur um stefnu þeirra og hagsmunamál fyrirtækjanna í borginni.
Þetta gerðum við af því að okkur fannst vanta fókus á atvinnulífið og málefni fyrirtækjanna í kosningabaráttunni, þrátt fyrir að atvinnurekendur séu kjósendahópur upp á meira en tuttugu þúsund manns.
Niðurstaðan varð að mér fannst, mjög gagnleg og upplýsandi viðtöl.
Svo er líka skemmtilegt að tækniþróunin geri gömlum blaðamanni, sem aldrei vann í útvarpi eða sjónvarpi, kleift að vera með sinn eigin útvarps- og sjónvarpsþátt á netinu.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Lykilatriði númer eitt er að halda vel utan um dagbókina sína. Ég var einu sinni mjög lélegur í því og það endaði oft með alls konar óheppilegum uppákomum, eins og þegar 30 norskir blaðamenn biðu eftir aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, sem var í sundi.
Mér hefur farið fram með dagbókina en ég nota ekki mikið af öðrum rafrænum tólum. Verkefnalistinn minn er til dæmis bara uppi á tússtöflu á skrifstofunni.
Í svona starfi eins og ég sinni skiptir miklu máli að átta sig á hvað er á sjóndeildarhringnum, til dæmis í pólitíkinni, og hvernig umræðan í þjóðfélaginu er að þróast þannig að maður hafi áhrif á mál þegar þau eru að mótast en þurfi ekki að bregðast við orðnum hlut.
Við starfsmenn FA tökum þess vegna oft umræður um það við hverju megi búast á næstu vikum, mánuðum og árum. Síðast en ekki síst er mér að lærast að skipuleggja mig þannig að vinnan éti ekki kvöldin og helgarnar, heldur séu sæmilega skýr skil á milli vinnu og fjölskyldulífs.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Eins og ég sagði hef ég verið að umbreytast í A-manneskju og er yfirleitt kominn í bólið með góða bók upp úr klukkan tíu. Best að vera sofnaður fyrir klukkan ellefu, þá vaknar maður ferskur klukkan sjö eftir átta tíma svefn.“